Breiðablik er ennþá með fullt hús stiga eftir 3:0-sigur liðsins gegn Þrótti í 8. umferð Bestu deildar kvenna á Kópavogsvelli í dag. Sigurinn þýðir að Breiðablik er á toppi deildarinnar með 24 stig en Þróttur í neðsta sæti með aðeins fjögur stig.
Blikakonur byrjuðu leikinn betur og fékk Andrea Rut Bjarnadóttir fínasta færi til að koma þeim yfir eftir að komast inn í sendingu Molle Swift úr marki Þróttar en skot hennar var bjargað á línu af Sóleyju Maríu Steinarsdóttur.
Í kjölfarið varð meira jafnræði á milli liðanna. Breiðablik hélt meira í boltann en vörn Þróttar var þétt fyrir. Ólöf Sigríður Kristinsdóttir var hársbreidd frá því að koma Breiðablik yfir á 19. mínútu. Hún fékk boltann frá Vigdísi Lilju Kristjánsdóttur, tók glæsilegan snúning og átti skot rétt framhjá.
Besta færi Þróttar í fyrri hálfleik kom á 36. mínútu. Leah Pais, á vinstri kantinum, kom með frábæra fyrirgjöf á Kristrúnu Rut Antonsdóttur sem var alein í teig Blika. Hún náði skoti en það var beint á Telmu Ívarsdóttur í marki Breiðabliks.
Aðeins tveimur mínútum síðar átti Freyja Karín Þorvarðardóttir skalla rétt framhjá eftir góða fyrirgjöf frá Caroline Murray. Staðan 0:0 í hálfleik.
Breiðablik byrjaði síðari hálfleikinn af miklum krafti og á 50. mínútu kom Andrea Rut Bjarnadóttir þeim yfir. Agla María Albertsdóttir kom með háan bolta inn í teig Þróttar, Andrea tók á móti boltanum, skaut og fór skotið af varnarmanni og í netið.
Agla María Albertsdóttir tvöfaldaði forystu Breiðabliks aðeins sex mínútum síðar. Hún gerði það með marki beint úr hornspyrnu.
Þremur mínútum síðar gerði Karítas Tómasdóttir út um leikinn með laglegu marki. Ásta Eir Árnadóttir kom með háan bolta fram völlinn sem Karítas komst í og náði hún að taka hann niður og skora af miklu öryggi framhjá Mollee Swift í marki Þróttar. Þrjú mörk á aðeins níu mínútum.
Lítið gerðist í kjölfarið, Þróttur fékk ágætis færi til að minnka muninn en það gekk ekki. Lokaniðurstöður í dag, 3:0 sigur Breiðabliks.