Nik Chamberlain, þjálfari Breiðabliks, var kátur þegar hann mætti í viðtal til mbl.is eftir 3:0 sigur liðsins gegn Þrótti í Bestu deild kvenna á Kópavogsvelli í dag.
„Ég er mjög ánægður með seinni hálfleikinn. Fyrri hálfleikurinn var 50/50 og við smá taugaóstyrk en ég er mjög ánægður með síðari hálfleikinn. Við náðum markinu og þegar við gerðum það, vissi ég að við stýrðum leiknum og myndum sigla þessu í höfn,“ sagði Nik í samtali við mbl.is
Fyrri hálfleikurinn var nokkuð jafn og fengu bæði lið ágætis færi til að taka forystu.
„Það var mikilvægt fyrir okkur að fara í hálfleik í stöðunni 0:0 svo við gætum endurstillt okkur og komið út og sýnt okkur sjálfum að við gætum þetta,“ sagði Nik.
Þú stýrðir kvennaliði Þróttar í mörg ár. Var það skrítin tilfinning að stýra liði gegn þeim?
„Nei, þetta er bara einn af þessum hlutum sem gerast í fótbolta. Ég var smá stressaður vegna sumra orðanna sem ég valdi í viðtölum fyrir leik en þegar leikurinn hófst einbeitti ég mér að liðinu og að ná í þrjú stig.“
Breiðablik mætir Víkingi á útivelli í næstu umferð.
„Við höldum áfram, Það á eftir að vera erfiður leikur. Við erum núna að spila marga útileiki, þannig við þurfum að vera hörð og á tánum. Ég mun þjálfa gegn mjög góðum vini í John Andrews svo það á eftir að vera spennandi,“ sagði Nik að lokum.