„Ég held að þetta verði geggjaður leikur og geggjuð frammistaða hjá okkur. Við ætlum að vinna Val,“ sagði Nikolaj Hansen, fyrirliði Víkings í Bestu deild karla fyrir leik Víking og Vals annað kvöld.
Víkingur er á toppi deildarinnar og Valur fjórum stigum á eftir þeim í þriðja sæti. Þrjú stig gen Val getur hjálpað Víkingum að breikka bilið milli liðanna í toppbaráttunni.
„Það eru ennþá 20 leikir eftir og mikið eftir að gerast í deildinni en ef við vinnum leikinn þá erum við í mjög fínni stöðu í deildinni,” sagði Nikolaj í viðtali við mbl.is og bætti við. „Það skiptir samt ekki máli hvenær maður kemur, það er alltaf pressa að koma hingað og mæta Val. Liðið þarf að vera 100% tilbúið í leikinn og Arnar verður svo með flott leikplan.“
Nikolaj spilaði fyrst með Val þegar hann kom til landsins árið 2016 og virðist hafa gaman af því að skora gegn sínu gamla félagi. Hann hefur skorað í fjórum af síðustu sex viðureignum liðanna í deildinni og sagðist ætla að skora aftur á morgun.