Fylkismenn komust af botni Bestu deildar karla í fótbolta í kvöld með því að sigra Vestra, 3:2, í bráðfjörugum fyrsta leik tíundu umferðar í Árbænum.
Fylkir fer þar með upp fyrir KA og er með 7 stig eins og HK, sem spilar nú við Fram, en Vestri er áfram með 10 stig í níunda sætinu. Botnbaráttan þéttist verulega við þessi úrslit.
Vestri byrjaði leikinn betur en Fylkismenn komu betur inn eftir fyrstu 15 mínúturnar og voru heldur sterkari út fyrri hálfleikinn.
Það voru hins vegar Vestramenn sem komust yfir á 27. mínútu. Eftir hornspyrnu frá hægri skallaði Vladimir Tufegdzic niður í markteiginn vinstra megin og þar var fyrirliðinn Elmar Atli Garðarsson mættur og afgreiddi boltann í hornið fjær - staðan 1:0 fyrir Vestra.
Forystan entist ekki lengi því á 34. mínútu jöfnuðu Fylkismenn. Emil Ásmundsson brunaði að endamörkum hægra megin eftir sendingu Þórðar Gunnars Hafþórssonar, Vestfirðingsins í Fylkisliðinu. Emil renndi boltanum að vítapunkti þar sem Matthias Præst hamraði hann viðstöðulaust upp undir þverslána, 1:1.
Engu munaði að Fylkir kæmist yfir á 39. mínútu. Orri Hrafn Kjartansson sendi fyrir markið frá vinstri, Þórður Gunnar skallaði boltann í stöngina hægra megin, þaðan inn að marklínunni þar sem fyrirliðinn Elmar Atli kom á ferðinni og forðaði marki á síðustu stundu.
Staðan var því 1:1 í hálfleik.
Vestramenn voru ágengari framan af síðari hálfleiknum og vantaði herslumuninn til að komast í dauðafæri. Jeppe Gertsen skallaði tvívegis framhjá marki Fylkis eftir hornspyrnur frá Toby King.
Benedikt Daríus Garðarsson átti fyrsta hættulega færi síðari hálfleiks, nýkominn inn á sem varamaður hjá Fylki, þegar hann skaut hárfínt framhjá stönginni hægra megin á 61. mínútu.
Benedikt fékk síðan sannkallað dauðafæri á 68. mínútu þegar hann var einn gegn Eskelinen í marki Vestra vinstra megin í vítateignum en Finninn varði skot hans í horn.
Benedikt var enn á ferð á 72. mínútu þegar hann átti fast skot úr miðjum vítateig eftir hornspyrnu en beint á Eskelinen í markinu.
Fylkismenn komust síðan í 2:1 á 73. mínútu. Arnór Breki Ásþórsson sendi boltann fyrir markið frá vinstri og varamaðurinn Þóroddur Víkingsson skallaði hann niður í vinstra hornið, 2:1.
Þessu fylgdu Árbæingar eftir og á 79. mínútu fékk Ómar Björn Stefánsson, annar varamaður Fylkis, stungusendingu á milli miðvarða Vestra frá Nikulási Val Gunnarssyni og laumaði boltanum í netið, 3:1.
Vestramenn gáfust ekki upp og á 88. mínútu skoraði miðvörðurinn Jeppe Gertsen með hörkuskoti frá vítateig upp undir þverslána eftir sendingu frá Benedikt Warén, 3:2.
Og Vestri var ótrúlega nálægt því að jafna mínútu síðar. Benedikt Warén komst í færi vinstra megin í vítateignum og skaut í stöng, boltinn hrökk inn í markteiginn þar sem Jeppe Gertsen var einn gegn Ólafi Kristófer Helgasyni sem á lygilegan hátt tókst að verja skot hans.
Ólafur var aftur á ferð í uppbótartímanum þegar hann varði frá Tarik Ibrahimagic í vítateig Fylkis. En Árbæingum tókst að standa af sér þunga pressu Vestra í lokin og innbyrða þrjú dýrmæt stig.