Valur og Víkingur skildu jöfn, 2:2, í stórleik 10. umferðar Bestu deildar karla í fótbolta á Hlíðarenda í kvöld. Víkingur er enn í toppsætinu, nú með 26 stig. Valur og Breiðablik eru jöfn með 22 stig í öðru og þriðja sæti.
Fyrri hálfleikurinn var skemmtilegur og liðin skiptust á að sækja. Tryggvi Hrafn Haraldsson var nálægt því að skora fyrsta markið á 12. mínútu er hann negldi boltanum í samskeytin á marki Víkinga.
Tveimur mínútum síðar átti Gunnar Vatnhamar skalla að marki Vals eftir hornspyrnu frá Pablo Punyed en Birkir Már Sævarsson var réttur maður á réttum stað fyrir Val og bjargaði á línu.
Var staðan 0:0 fram að 35. mínútu en þá skoraði Valdimar Þór Ingimundarson fyrsta mark leiksins er hann skallaði í netið af stuttu færi eftir fyrirgjöf frá Aroni Elís Þrándarsyni. Var markið það fyrsta sem hann skorar fyrir Víking í deildinni.
Jónatan Ingi Jónsson komst næst því að skora fyrir Val það sem eftir lifði fyrri hálfleiks en Ingvar Jónsson varði hættulegt skot hans á 40. mínútu vel og voru Víkingar því marki yfir í hálfleik, 1:0.
Gylfi Þór Sigurðsson jafnaði í 1:1 fyrir Val á 54. mínútu er hann skoraði af miklu öryggi úr víti sem Jónatan Ingi Jónsson náði í.
Aðeins fjórum mínútum síðar kom Valdimar hins vegar Víkingum yfir á ný er hann skoraði af stuttu færi eftir sendingu frá Erlingi Agnarssyni.
Gylfi Þór var nálægt því að skora sitt annað mark á 82. mínútu en Ingvar varði vel frá honum og Guðmundur Andri Tryggvason rétt missti af boltanum í góðri stöðu í kjölfarið.
Stefndi allt í 2:1-sigur Víkinga en Valur fékk annað víti í uppbótartíma þegar Ingvar Jónsson tók Guðmund Andra niður innan teigs. Gylfi fór aftur á punktinn og skoraði aftur af öryggi og þar við sat.