Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, kvaðst sáttur við eitt stig eftir 2:2-jafntefli liðsins gegn Val í Bestu deild karla í fótbolta á Hlíðarenda í kvöld. Valur jafnaði með marki úr víti í uppbótartíma.
„Ég væri ekki mannlegur ef ég væri það ekki (pirraður þegar vítið var dæmt) en við tökum það jákvæða úr þessu. Þetta var frábært stig á erfiðum útivelli og mér fannst þetta frábær fótboltaleikur og frábær auglýsing fyrir deildina. Það voru mikil gæði í þessu.
Það eina sem pirrar mig er að við hættum að spila eftir annað markið okkar. Við vorum komnir með þá en fórum að verja forskotið okkar frekar en að reyna að sækja þriðja markið. Ég held jafntefli hafi verið sanngjörn niðurstaða,“ sagði Arnar við mbl.is eftir leik og hélt áfram:
„Þetta var virkilega öflug frammistaða fyrstu 65-70 mínúturnar í rauninni hjá báðum liðum. Það eru gríðarleg einstaklingsgæði. Þeir eru með virkilega flott lið og að mínu mati unnum við eitt stig. Við verðum áfram á toppi deildarinnar eftir þessa umferð, verra er það ekki hjá okkur,“ sagði hann.
Arnar vildi ekki ræða vítin tvö sem Valur fékk í leiknum. „Ég ætla ekki að tjá mig um það. Það hefur ekkert upp á sig. Það eru spekingar þarna úti sem finna örugglega hæga endursýningu á þessu í báðum vítum. Ég nenni ekki að tala um það.“
Arnar hafði töluvert meiri áhuga á að ræða frammistöðu beggja liða en frammistöðu dómarans.
„Þetta var geggjaður leikur. Það mátti varla blikka augunum í fyrri hálfleik. Ég man ekki eftir að hafa séð svona gæðamikinn leik hjá báðum líðum. Um leið og þú misstir boltann þurftirðu að gera svo vel að verjast. Þetta var virkilega gaman. Það var alvöruhiti og vel tekist á,“ sagði Arnar.