Stjarnan hafði betur gegn FH, 4:2, í 10. umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu í Garðabænum í kvöld.
Stjarnan fer upp fyrir FH og í fimmta sætið með sigrinum en liðið er með 16 stig. FH er í sjötta með 14.
Björn Daníel Sverrisson kom FH yfir á 27. mínútu leiksins með skemmtilegri afgreiðslu af stuttu færi.
Þá fylgdi hann á eftir skalla Dusan Brkovic og potaði boltanum í netið með hælnum á lofti.
Guðmundur Baldvin Nökkvason jafnaði metin á 40. mínútu með frábærri afgreiðslu í hægra hornið utan teigs, 1:1.
Óli Valur Ómarsson kom Stjörnumönnum yfir á 82. mínútu með stæl. Þá lék hann á mann og annan í vörn FH og smellti honum í vinstra hornið. Þetta var frábært mark og Stjarnan var komin yfir, 2:1.
Baldur Logi Guðlaugsson kom Stjörnunni í 3:1 á fjórðu mínútu uppbótartímans eftir flotta sendingu frá Róberti Frosta Þorkelssyni.
Björn Daníel skoraði hins vegar sitt annað mark á sjöttu mínútu uppbótartímans þegar hann potaði fyrirgjöf Kjartans Kára í netið, 3:2.
Á sömu mínútunni skoraði Emil Atlason hins vegar fjórða mark Stjörnunnar með góðri utanfótarafgreiðslu, 4:2, og sigur Stjörnunnar var staðreynd.
Stjarnan heimsækir HK í næstu umferð en FH fær Fylki í heimsókn.