Davíð Smári Lamude, þjálfari Vestra, sakaði leikmenn Fylkis um kynþáttaníð í garð leikmanna sinna í leik liðanna í Bestu deild karla í knattspyrnu í Árbænum í gærkvöldi.
„Það eru hlutir sem gerast hérna í dag fyrir utan fótboltann sem sitja í manni, ummæli frá leikmönnum Fylkis. Rasísk ummæli í garð minna leikmanna sem ég er ekki sáttur með,” sagði Davíð Smári í samtali við Stöð 2 Sport eftir leikinn.
Fylkismenn komust af botninum eftir spennuleik
„Ummæli frá þjálfara Fylkis í minn garð sem eru ekki við hæfi í fótboltaleik, það situr líka eftir. Ég held að þeir sem eiga í hlut, þeir vita bara upp á sig sökina.
Þeir sem vilja kafa dýpra í það verða bara að fara yfir hvað gerist hérna í leiknum þegar allt sýður upp úr, milli hverra það er.
Ég ætla ekki að eiga nein ummæli um það. Þjálfari Fylkis má reyndar eiga það að hann biður mig afsökunar og ég tek því,“ bætti hann við.
Fótbolti.net fjallar um málið í dag þar sem kemur fram að von sé á yfirlýsingu frá bæði Fylki og Vestra auk þess sem málið hafi verið rætt hjá Knattspyrnusambandi Íslands en sé ekki formlega komið inn á borð sambandsins.
Verður málið skoðað frá öllum hliðum samkvæmt Jörundi Áka Sveinssyni, yfirmanni knattspyrnumála hjá KSÍ.