Það er hart í ári hjá liði Fylkis í Bestu deild kvenna í fótbolta. Eftir sex tapleiki í röð vermir liðið botnsætið. Í kvöld tapaði Fylkir fyrir Þór/KA á Akureyri og lauk leiknum 3:1 eftir jafna stöðu í hálfleik.
Þjálfarinn Gunnar Magnús Jónsson er ekki af baki dottinn og sér margt jákvætt í spilunum. Hann var hundsvekktur með að hafa tapað í kvöld.
„Ég er alveg hrikalega svekktur með að fá ekkert út úr leiknum. Már fannst bara við eiga heilmikið skilið út úr honum. Vinnuframlagið og dugnaðurinn í liðinu og svo áttum við fínar sóknir þannig að ég er ógeðslega pirrarður. Það er ógeðslega svekkjandi að vera alltaf í einhverju svona næstum því. Við fengum á okkur skítamörk. Mörk eru oft ódýr en þetta voru skítamörk í dag.“
Það var ekki mikið um færi þótt Þór/KA væri mun meira með boltann og þið hefðuð alveg getað refsað betur. Varnarlína Þórs/KA var oft þannig að það hefði verið tækifæri á að nýta sér það.
„Algjörlega. Það var mjög opið stundum á bak við þær og við hefðum átt að nýta okkur það miklu betur. Mér fannst þær tæpar í vörninni. Við ræddum það aðeins í hálfleik að reyna að fara meira á bak við þær og herja meira á þær. Við vorum að reyna það og eins og ég segi þetta var bara hörkuleikur.
Mér fannst einmitt þær skapa lítið af færin Þær skora tvisvar með langskotum og svo úr föstu leikatriði. Þær voru ekki að spila sig mikið í gegnum okkur.“
Þið byrjuðuð mótið nokkuð vel en eruð nú í botnsætinu eftir sex tapleiki í röð. Það er þó ekki langt í næstu lið fyrir ofan ykkur.
„Já, nú erum við búin að máta okkur við öll liðin í deildinni. Þó að maður reyni að halda í jákvæðnina þá verður það erfiðara með hverju tapi. Við erum með flotta leikmenn og góðan hóp og við komum á fullu inn í seinni umferðina. Þetta er pakki en við verðum að fara að ná í stig.
Við höfum fengið mjög erfiða andstæðinga í síðustu leikjum. Nú förum við að spila við lið sem eru nær okkur og verðum að skila sigrum þar. Næst er það leikur við Þrótt, sem var að koma sér úr botnsætinu í kvöld. Það er risaleikur fyrir okkur.“
Það er stutt á milli leikja núna og Þróttur, Víkingur og Keflavík bíða.
„Það er álag núna og það reynir á hópinn. Nú er það bara góð endurheimt. Grasið tekur vel í.“
Verður þá gott að fara aftur á gervigras í næstu tveimur leikjum?
„Mér finnst ógeðslega gaman að vera í grasleikjum. Það fylgir því orðið ákveðin rómantík að finna graslyktina og svo kemur grilllyktin ofan á hana. Þetta er bara skemmtilegt“ sagði Gunnar Magnús að skilnaði.