Auðvelt að gagnrýna þegar við fáum svona mark á okkur

Árni Snær Ólafsson fékk á sig mark frá miðju á …
Árni Snær Ólafsson fékk á sig mark frá miðju á örlagastundu. Ljósmynd/Kristinn Steinn

„Þetta var skrýtinn leikur," sagði Árni Snær Ólafsson, markvörður Stjörnunnar, sem mátti sætta sig við ósigur gegn HK, 4:3, í mögnuðum leik liðanna í Bestu deild karla í fótbolta í Kórnum síðdegis í dag.

„Við vorum klaufar að lenda undir í lok fyrri hálfleiks, 2:1, sem var sterkt hjá þeim, en tilfinningin var sú að við værum ofan á í leiknum. Þeir skoruðu hins vegar úr tveimur hornspyrnum. Við höfum fulla trú á því að við myndum koma strax til baka í seinni hálfleik, ætluðum að sækja sigurinn, en þá fengum við mark í fésið og staðan orðin 3:1.

Við sóttum svo allan síðari hálfleikinn og náðum að lokum að brjóta þá niður og skora tvisvar þarna undir lokin. Það var vel gert að koma til baka en sigurmarkið hefði mátt detta okkar megin," sagði Árni við mbl.is eftir leikinn.

Atli Hrafn Andrason skoraði sigurmark HK, rétt eftir að Stjarnan jafnaði í 3:3, með skoti frá miðju, yfir Árna og í netið. Árni var utan vítateigs og gat ekkert gert.

Atli Þór Jónasson og Daníel Laxdal í baráttu í Kórnum …
Atli Þór Jónasson og Daníel Laxdal í baráttu í Kórnum í dag. mbl.is/Óttar Geirsson

„Ég var talsvert fyrir utan teiginn, við viljum gera þetta þannig þegar við pressum framarlega, þá er ég með í spilinu. HK-ingarnir vissu það og gerðu þetta vel. Svo má alltaf deila um hvort eigi að spila svona eða ekki. Það er auðvelt að gagnrýna þegar við fáum svona mark á okkur, en þegar maður tekur þátt í spilinu getur það verið vinningur á hinn veginn," sagði markvörðurinn.

Miklar sveiflur hafa verið í úrslitum Stjörnumanna sem ýmist skora þrjú til fjögur mörk eða fá fjögur til fimm á sig og Árni sagði að það yrði að stöðva.

„Þetta er alltof mikill rússíbani hjá okkur. Við þurfum að vernda markið okkur betur í öllum þáttum leiksins, hvernig sem við gerum það. Í þessum leik voru það föstu leikatriðin sem felldu okkur. Við þurfum að virða það og fá ekki á okkur slík mörk. Þá hefðum við unnið þennan leik og líka síðasta tapleik.

Staðan er bara þannig hjá okkur að við fáum á okkur alltof mikið af mörkum. Við skorum líka, erum með fullt af gaurum sem geta skorað mörk og hefðum getað gert fleiri í dag, líka gegn FH og Vestra. Við búum til fullt af færum en þurfum bara að kítta aðeins betur upp í eigið mark.

Við viljum ekki vera þetta jójó-lið. Við viljum vera sterkir í vörninni og búa okkur til mikið af færum í sóknarleiknum, og við höfum alla burði í það. En við vinnum í þessu áfram og komum sterkir til baka," sagði Árni Snær Ólafsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert