Þá skaut ég bara og boltinn endaði inni

Atli Hrafn Andrason skoraði sigurmark HK og á hér í …
Atli Hrafn Andrason skoraði sigurmark HK og á hér í höggi við Óla Val Ómarsson. mbl.is/Óttar Geirsson

Atli Hrafn Andrason skoraði eitt magnaðasta mark Bestu deildarinnar til þessa þegar hann tryggði HK sigur á Stjörnunni síðdegis í dag, 4:3, í Kórnum með skoti frá miðjum velli í uppbótartíma leiksins.

„Ég tók bara góða snertingu á boltann þegar ég fékk hann á miðjunni, eiginlega fullkomna, og sá um leið að markvörðurinn var frekar framarlega. Þá skaut ég bara og boltinn endaði inni, eins sætt og það var," sagði Atli Hrafn þegar mbl.is bað hann um að lýsa atburðarásinni eftir leikinn.

Hvernig var að horfa á eftir boltanum?

„Ég verð að viðurkenna að ég hélt að hann hefði farið yfir markið því markmaðurinn var svo rólegur. Æ, þetta er ekki inni, hugsaði ég fyrst, en svo sá ég að þetta var mark."

Það hlýtur að hafa verið sérstaklega sætt þar sem þið voruð nýbúnir að fá tvö mörk í bakið og missa niður tveggja marka forskot?

„Við áttum ekki að þurfa að enda þetta svona en við vorum sjúklega lélegir þarna á lokamínútunum þegar þeir skoruðu tvö mörk og jöfnuðu. En það var frábært að vinna þetta á svona augnabliki.

Mér fannst Stjörnumenn ekki skapa sér mikið í seinni hálfleik fyrr en þarna á lokamínútunum. En þeir tóku leikinn alveg yfir og voru svakalega góðir. Þeir eru mjög góðir með boltann, við vissum það og færðum okkur því aðeins aftar á vellinum. En mér fannst við vera með tök á leiknum þar til þeir skoruðu þessi tvö mörk. Þá vorum við orðnir stressaðir en það skiptir ekki máli núna, við unnum leikinn."

Þið eruð komnir með 13 stig en hafið tekið 12 þeirra gegn liðum fyrir ofan ykkur á töflunni. Hvernig stendur á því og hvers vegna náið þið ekki í stig gegn liðunum sem þið eruð að berjast við í neðri hlutanum?

„Ég held að þetta sé vandamál sem HK hefur glímt við í mörg ár. Við þurfum að líta inn á við og taka þessa leiki. Ef við getum sýnt svona frammistöðu gegn betri liðunum þá eigum við að geta gert það líka gegn liðunum fyrir neðan okkur.

En um leið eru þetta tólf lið í Bestu deildinni sem geta unnið hvert annað. Við sýndum það með því að vinna Víkingana sem höfðu ekki tapað í óratíma. Við eigum að geta unnið alla en það er stutt í botninn og við þurfum að halda haus og passa að missa okkur ekki. Það er nóg eftir af mótinu, nóg stig til að vinna og nóg stig til að tapa. Við höldum bara áfram," sagði Atli Hrafn Arnarson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert