Vesturbæingurinn Katrín Ásbjörnsdóttir, sóknarmaður Breiðabliks, var að vonum í skýjunum eftir að hafa skorað bæði mörk Blika í 2:0-útisigri gegn Keflavík suður með sjó í kvöld.
Þetta var fyrsti byrjunarliðsleikur Katrínar með Blikum í deildinni í sumar en hún kann vel við sig þegar hún spilar gegn Suðurnesjaliðinu. Hún skoraði einnig tvö mörk gegn Keflvíkingum í Mjólkurbikarnum fyrr í mánuðinum.
Það er ekki sjálfgefið að sækja sigur í Keflavík og voru Blikastúlkur vel undirbúnar fyrir leikinn í kvöld sem fór fram við fínar aðstæður.
„Við vissum að við værum að fara í erfiðan útileik og sérstaklega í Keflavík. Þetta lið berst alltaf vel gegn okkur og við þurftum að mæta þeim í ýmsum þáttum inni á vellinum.
Í heildina er þetta góður sigur, öflug þrjú stig. Ég hefði þó viljað sjá okkur taka með kraftinn úr fyrri hálfleikinn [sem Blikar réðu lögum og lofum í] inn í seinni hálfleik og spila betur,“ sagði Katrín í samtali við mbl.is.
Liðin hafa núna mæst þrisvar sinnum á keppnistímabilinu og að sögn Katrínar var fátt sem kom þeim á óvart hjá andstæðingnum.
„Þetta var þriðji leikurinn okkar gegn þeim á tímabilinu og við áttum von á að þær myndu spila með 4 eða 5 manna vörn og við vorum klárar í það þannig að þetta kom okkur lítið á óvart.
Við hefðum viljað spila af meiri krafti í seinni hálfleik og skora fleiri mörk en það gekk ekki og þær komu grimmar útí seinni hálfleik og þær hefðu getað skorað en við vorum heppnar.“
Telma Ívarsdóttir í marki Breiðablik var virkilega góð í markinu og átti tvær lykilvörslur í seinni hálfleik.
„Telma hélt okkur inni í leiknum og bjargaði okkur algjörlega á þessum lykil stundum,“ sagði Katrín að lokum í samtali við við mbl.is.