Katrín sá um Keflavík

Katrín Ásbjörnsdóttir var fljót að koma Blikum yfir í kvöld.
Katrín Ásbjörnsdóttir var fljót að koma Blikum yfir í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Breiðablik hafði bet­ur gegn Kefla­vík, 2:0, þegar liðin átt­ust við í 10. um­ferð Bestu deild­ar kvenna í knatt­spyrnu í Kefla­vík í kvöld. Katrín Ásbjörns­dótt­ir skoraði bæði mörk Blika í fyrri hálfleik.

Breiðablik held­ur topp­sæt­inu og er nú með 27 stig, þrem­ur stig­um fyr­ir ofan Val í öðru sæti. Kefla­vík er áfram í ní­unda og næst neðsta sæt­inu með sex stig.

Breiðablik byrjaði leikinn af krafti og var nálægt því að skora á upphafsmínútunni þegar markmaður Keflavíkur, Vera Varis, lenti í smá klandri þegar hún ætlaði að spila boltanum út frá markinu. Birta Georgsdóttir leikmaður Breiðabliks komst í gott færi og virtist eins og Vera hefði brotið á henni en dómari leiksins, Twana Khalid Ahmed, sá ekkert athugavert og var líka mjög vel staðsettur.

Á 4.mínútu skoraði Katrín Ásbjörnsdóttir, sóknarmaður Breiðabliks, fyrsta markið þegar hún stýrði boltanum í netið með skoti úr vítateig eftir sendingu frá Birtu Georgsdóttur frá hægri. 1:0 fyrir gestina úr Kópavogi.

Breiðablik var miklu sterkara næstu mínútur og liðið tvöfaldaði forystuna á 27.mínútu þegar Katrín skoraði aftur og núna eftir hornspyrnu. 2:0 fyrir Breiðablik.

Keflavík fékk aukaspyrnu á 33. mínútu vel út fyrir vítateig. Anita Lind Daníelsdóttir, varnarmaður Keflavíkur, átti þrumuskot sem fór rétt yfir markið.

Lítið markvert gerðist í kjölfarið og staðan 2:0 fyrir gestunum þegar fyrri hálfleik lauk.

Keflavík beit aðeins frá sér í seinni hálfleik og liðið fékk sitt besta færi á 49. mínútu þegar Melanie Forbes komst ein í gegn og átti skot úr vítateig sem Telma Ívarsdóttir í marki Breiðablik varði frábærlega.

Níu mínútum síðar komst Blikinn Hrafnhildur Ása Halldórsdóttir inní teig, fór framhjá nokkrum Keflvíkingum en Anita Lind í vörn Keflavík, sem átti flottan leik í kvöld, sá við henni og skýldi boltanum þannig að Vera Varis í markinu náði valdi á boltanum og gat komið honum í leik.

Á 74. mínútu fengu Keflvíkingar aukaspyrnu, rétt fyrir utan teig. Títtnefnd Anita Lind tók spyrnuna og þrumaði í nærhornið en Telma Ívarsdóttir í markinu var vel á verði og átti frábæra vörslu.

Bæði lið skiptust á áhlaupum en hvorugu tókst að ógna marki hvors annars að ráði.

Leiknum lauk með 2:0-útisigri Blika sem fara mjög sáttar með með þrjú stig heim en Keflavíkurstelpur eru eflaust svekktar með að hafa ekki náð að koma sér betur inn í leikinn í seinni hálfleik með marki og vilja eflaust ná vopnum sínum til baka í þeirri von að sækja stig í næstu leikjum og komast upp úr fallsæti.

Keflavík 0:2 Breiðablik opna loka
90. mín. Það verða að minnsta kosti tvær mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert