„Það var gaman að sjá hana skora“

Valskonur fagna Önnu Björk Kristjánsdóttur en Akureyrarkonur eru miður sín.
Valskonur fagna Önnu Björk Kristjánsdóttur en Akureyrarkonur eru miður sín. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Lillý Rut Hlynsdóttir var á fornum slóðum í Þorpinu á Akureyri í kvöld. Hún spilaði með liði Vals sem lagði Þór/KA 2:1 í Bestu deild kvenna í fótbolta. Valur berst enn um toppsæti deildarinnar við Breiðablik.

Sigur Vals var ansi tæpur en liðið var 1:0 undir á 85. mínútu leiksins. Lillý Rut kom hin hressasta í viðtal eftir leik.

Lillý. Þú ert hér á gamla heimavellinum og það eru myndir af þér upp um alla veggi. Það hlýtur að hafa verið auka spenningur fyrir þig að koma hingað.

„Það er alltaf gaman en líka skrýtið á sama tíma. Mér líður vel hérna og finnst það meira skemmtilegt en stressandi að mæta hingað.“

Leikurinn var spennuþrunginn og skemmtilegur áhorfs. Mikil barátta og flottir spilkaflar hjá báðum liðum. Fjörið byrjaði svo í sinni hálfleiknum og það var viss undiralda í leiknum.

„Við vissum alveg að þetta yrði hörkuleikur og að allt gæti gerst. Liðin fóru varlega. Þetta var barátta og leikmenn Þórs/KA koma alltaf brjálaðir til leiks. Þetta var kannski ekki fallegasti fótboltaleikurinn en það var örugglega gaman að horfa á hann. Það var mjög sterkt að klára leikinn og taka öll stigin. Ég hafði alltaf trú á að við gætum snúið þessu. Við erum með gæðaleikmenn og þetta var ógeðslega vel gert.“

Þið lentuð undir og þá fyrst fór lið ykkar að sækja af krafti.

„Við náðum að kveikja á okkur og fórum að tengja betur á síðasta þriðjungi. Þá fórum við almennilega að sýna okkar rétta andlit. Svona leikir eru skemmtilegastir.“

Er ekkert fúlt að hafa ekki náð sjálf að skora sigurmarkið?

„Ég er bara mjög glöð fyrir hönd Önnu Bjarkar. Það var gaman að sjá hana skora. Auðvitað langar mann altaf að skora. Það gerist reyndar ekki oft.“

Mörkunum er farið að fækka hjá þér.

„Já þeim fækkar bara með hverju árinu.“

Nú erum við að virða fyrir okkur mynd af þér og meistaraliði Þórs/KA árið 2017. Ertu ekkert á leiðinni norður aftur?

„Þetta voru frábærir tímar og ég er mjög þakklát fyrir þá. Það er aldrei að vita hvað gerist. Kannski enda ég aftur á Akureyri. Ég er ekki hissa á öllum þeim fjölda leikmanna sem eru héðan og spila núna í deildinni. Það er frábært starf unnið hérna fyrir norðan og það eru örugglega ennþá fleiri leikmenn á leiðinni“ sagði Lillý Rut að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert