Valur kreisti fram sigur fyrir norðan

Lidija Kulis hreinsar boltann frá marki Þórs/KA í leiknum í …
Lidija Kulis hreinsar boltann frá marki Þórs/KA í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Það var sannkallaður toppslagur í Bestu-deild kvenna í fótbolta í kvöld þegar Þór/KA og Valur mættust á Þórsvellinum á Akureyri.

Fyrir leik var Valur í 2. sæti með 24 stig. Þór/KA var í 3. sæti með 21 stig. Eftir mikinn hasar og spennu fram á lokaandartök leiksins var það Valur sem hrósaði 2:1-sigri.

Fyrri hálfleikurinn var mjög spennandi þótt liðin kæmu sér varla í nein almennileg færi. Valskonur réðu ferðinni í byrjun og urðu norðankonur að hamast í varnarleiknum til að halda sjó. Smám saman jafnaðist leikurinn og Þór/KA fór að bíta frá sér.

Bæði lið reyndu að halda í boltann og komu oft langir kaflar þar sem annað liðið spilaði laglega . sín á milli. Vantaði herslumuninn hjá báðum liðum til að opna andstæðinginn. Staðan var 0:0 í hálfleik og myndu flestir segja að fyrri hálfleikurinn hafi verið með rólegra móti.

Anna Björk tryggði sigurinn

Seinni hálfleikurinn var bráðskemmtilegur og mjög spennandi. Heimakonur skoruðu á 60. mínútu og var það glæsilegt mark. Hulda Ósk Jónsdóttir sendi boltann upp í skeytin á marki Vals, 1:0. Tók við kafli þar sem hvort lið hefði getað skorað en smám saman fóru Valskonur að liggja hressilega á heimaliðinu.

Leikmenn Þórs/KA börðust grimmilega um allan völlinn og ætluðu klárlega að halda sínu. Svo fór þó ekki þar sem Valur skoraði tvö mörk á lokasprettinum. Fyrst jafnaði Amanda Andradóttir, 1:1, og í uppbótartíma potaði Anna Björk Kristjánsdóttir boltanum í markið eftir glæsilega aukaspyrnu frá Amöndu, sem Harpa Jóhannsdóttir náði að verja, 2:1 fyrir Val.

Grátlegur endir á góðum leik

Mikilvægur sigur Vals en grátlegur endir hjá Þór/KA. Lið heimakvenna var virkilega skipulagt og var ekki annað hægt en að dást að baráttu þeirra. Liðið var svo rólegt á boltanum lengstum.

Hulda Björg Hannesdóttir og Jasmín Erla Ingadóttir á Þórsvellinum í …
Hulda Björg Hannesdóttir og Jasmín Erla Ingadóttir á Þórsvellinum í kvöld. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Öftustu þrír leikmenn liðsins spiluðu sérlega vel og var Lidija Kulis að spila sinn langbesta leik í búningi Þórs/KA. Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir kom grimm inn á miðjuna og vann urmul af boltum. Aðrar í liðinu virkuðu traustar og öruggar þar til spennan jókst á lokakafla leiksins.

Amanda var allt í öllu hjá Val lengi vel en í byrjun seinni hálfleiks komu Fanndís Friðriksdóttir og Ísabella Sara Tryggvadóttir til leiks og gjörbreyttist leikur Valst til hins betra með þeirra innkomu.

Það er með ólíkindum að Þór/KA hafi ekki skorað fleiri mörk í leiknum en liðið fékk þrjú dauðafæri áður en Valur kom með sín færi á lokakaflanum. Langbesta færið fékk Lara Ivansua þegar hárnákvæm sending rataði á hana í stöðunni 1:0. Hún þurfti bara að reka hausinn í boltann fyrir opnu marki en klikkaði illilega.

Þór/KA 1:2 Valur opna loka
90. mín. Lara Ivanusa (Þór/KA) fer af velli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert