Ætluðum frá fyrstu mínútu að keyra á þær

Arna Eiríksdóttir í baráttunni í leiknum í kvöld.
Arna Eiríksdóttir í baráttunni í leiknum í kvöld. mbl.is/Eyþór Árnason

„Við vorum búnar að ákveða að koma inn í leikinn með ótrúlega hátt orkustig, keyra á Tindastól frá fyrstu mínútu og við erum góðar í þessu, að pressa framarlega og það gekk eiginlega allt upp fyrstu mínúturnar,“ sagði Arna Eiríksdóttir fyrirliði FH eftir 4:1 sigur á Tindastól þegar liðin mættust á Kaplakrika og leikið var í 10. umferð efstu deildar kvenna í fótbolta.

Það eru orð að sönnu því FH-konur gáfu engin grið í byrjun og uppskáru mörk fyrir vikið en það tók sinn toll. „Mér fannst við spila fyrri hálfleikinn eiginlega frábærlega, skorum tvö mörk en það tekur mikla orku að keyra svona hratt með þessari ákefð og mér fannst þroskamerki í okkar liði að halda boltanum, færa okkur aðeins aftar en halda boltanum samt.“

„Mér fannst því fyrri hálfleikurinn svo sem  ekkert vesen en við komum einhvern veginn ekki alveg eins góður út í hann, hleyptum Tindastól fullmikið inn í leikinn þó við höfum fengið færi til að ganga algerlega frá leiknum.“ 

FH-konur eru nú í 4. sæti deildarinnar og 16 stig, með stigi meira en Víkingur í 5. sætinu en fimm stigum á eftir Þór/KA í þriðja sætinu og fyrirliðinn er meira að hugsa um það.  „Við horfum frekar eins og eltingaleik fyrir okkur í stað þess að hugsa um að losa okkur liðin sem er fyrir neðan okkur, leggjum meira upp úr því að komast áfram.  Úrslitin í gær gera að verkum að ef næsti leikur gengur vel hjá okkur getum við saxað hressilega á Þór/KA og við höldum bara ótrauðar áfram,“  bætti Arna við.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert