Búin að fá á okkur alltof mörg mörk

Gyða Kristín Gunnarsdóttir með boltann í leiknum í kvöld.
Gyða Kristín Gunnarsdóttir með boltann í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Óðinn Þórarinsson

Stjarnan þurfti að þola 3:2-tap gegn Víking í 10. umferð Bestu deildar kvenna í knattspyrnu í Fossvoginum í kvöld. Kristján Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar, var að vonum vonsvikinn eftir tapið.

„Mér fannst fyrst og fremst framför í ákefð í leiknum okkar. Við vorum þéttari og vorum að vinna fleiri bolta en í síðustu leikjum. En við erum ennþá að elta það að halda boltanum betur og þegar maður lendir í löngum köflum án boltans eins og í seinni hálfleik þá geta komið slys eins og tvö mörk á tveimur mínútum,“ sagði Kristján Guðmundsson.

Stjarnan byrjaði leikinn vel og komst yfir eftir aðeins 18. mínútna leik.

„Ég var sáttur við hvernig liðið kom inn í leikinn. Gott hugarfar og sterk heild sem börðust fyrir hverja aðra og gerðu vel í fyrri hálfleik,“ sagði Kristján.

Stjarnan hefur nú tapað fjórum leikjum í röð og mætir Keflavík í næstu umferð. Kristján er bjartsýnn fyrir leiknum.

„Hann leggst nokkuð vel í okkur. Mig grunar að okkur takist að halda betur í boltann þar og taka einhver skref áfram. Það er aðalmálið að ná einhverjum skrefum fram á við. Við erum búin að fá á okkur alltof mörg mörk og við þurfum aðeins að fara að loka á það,“ sagði Kristján að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert