Grindavík áfram á sigurbraut – jafnt í Suðurnesjaslagnum

Grindvíkingar fagna marki í kvöld.
Grindvíkingar fagna marki í kvöld. mbl.is/Eyþór Árnason

Grindavík vann þriðja leik sinn í röð þegar liðið hafði betur gegn ÍBV, 3:1, í Safamýri í 9. umferð 1. deildar karla í knattspyrnu í kvöld. Á sama tíma skildu Keflavík og Njarðvík jöfn, 1:1, í Keflavík.

Með sigrinum fór Grindavík upp fyrir ÍBV og er nú í þriðja sæti með 13 stig, jafnmörg og ÍBV sæti neðar og sömu markatölu en betri árangur í innbyrðis viðureignum.

Grindavík hefur unnið alla þrjá leiki sína eftir að Haraldur Árni Hróðmarsson tók við þjálfun liðsins.

Spánverjinn Dennis Nieblas kom Grindavík í forystu eftir rúmlega hálftíma leik þegar hann skoraði með skalla af stuttu færi eftir hornspyrnu landa síns Ion Perelló frá vinstri.

Á 81. mínútu slapp Dagur Ingi Hammer Gunnarsson einn í gegn og tvöfaldaði forystu Grindvíkinga með því að vippa boltanum snyrtilega yfir Jón Kristin Elíasson í marki ÍBV.

Skömmu síðar, á 85. mínútu, minnkaði ÍBV muninn í 2:1 þegar Vicente Valor skoraði með frábæru skoti fyrir utan vítateig eftir laglega rispu.

Á annarri mínútu uppbótartíma innsiglaði Kwame Quee hins vegar sigur Grindavíkur með þriðja markinu. Þá náði hann skoti af vítateigslínunni sem lak í markið.

Njarðvík áfram á toppnum

Í Keflavík kom Ásgeir Páll Magnússon Keflvíkinum yfir eftir tæplega stundarfjórðungs leik þegar hann stýrði skoti Edon Osmani í netið af stuttu færi í kjölfar hornspyrnu Sami Kamel frá hægri.

Eftir tæplega klukkutíma leik jafnaði Arnar Helgi Magnússon metin fyrir Njarðvík þegar hann kom boltanum í markið með skoti af stuttu færi eftir að Keflvíkingum tókst ekki að hreinsa boltann frá eftir aukaspyrnu Njarðvíkur af hægri kanti.

Þar við sat og er Njarðvík enn á toppi deildarinnar, nú með 20 stig. Keflavík er í sjötta sæti með tíu stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert