Leiknir og Þór með mikilvæga sigra

Axel Freyr Harðarson með boltann í leik Fjölnis og Aftureldingar …
Axel Freyr Harðarson með boltann í leik Fjölnis og Aftureldingar í Mosfellsbæ í kvöld. mbl.is/Eyþór Árnason

Leiknir úr Reykjavík og Þór frá Akureyri unnu bæði góða sigra í 1. deild karla í knattspyrnu í kvöld og komu sér þannig bæði upp úr fallsæti.

Leiknir var fyrir leikinn í botnsætinu en hafði betur gegn Þrótti úr Reykjavík, 3:1, og sá þannig til þess að Þróttur fór niður í botnsætið þar sem liðið er með sex stig.

Leiknir er nú í tíunda sæti með níu stig. Bæði mörkin í Breiðholtinu komu snemma leiks.

Jón Hrafn Barkarson braut ísinn á sjöundu mínútu áður en Shkelzen Veseli tvöfaldaði forystuna á 14. mínútu.

Þremur mínútum fyrir leikslok minnkaði Jörgen Pettersen muninn fyrir Þrótt en í uppbótartíma innsiglaði Omar Sowe sigur Leiknis með þriðja marki heimamanna.

Þægilegur sigur í grannaslagnum

Þór var fyrir leikinn í næstneðsta sæti en heimsótti nágranna sína í Dalvík/Reyni á Dalvík og vann öruggan sigur, 3:1.

Eftir sigurinn er Þór í níunda sæti með níu stig en Dalvík/Reynir fór niður í 11. og næstneðsta sæti, þar sem liðið er með sjö stig.

Elmar Þór Jónsson kom Þórsurum yfir eftir aðeins þriggja mínútna leik áður en Sigfús Fannar Gunnarsson tvöfaldaði forystuna á 25. mínútu.

Staðan var 2:0 í hálfleik en á 71. mínútu skoraði Alexander Már Þorláksson og kom gestunum frá Akureyri í 3:0.

Sex mínútum síðar minnkaði Borja López muninn fyrir Dalvík/Reyni en þar við sat.

Fjölnir jafnaði við Njarðvík

Fjölnir heimsótti nágranna sína í Mosfellsbæ og vann sterkan 1:0-sigur.

Með sigrinum jafnaði Fjölnir við Njarðvík í toppbaráttunni og er í öðru sæti. Bæði lið eru nú með 20 stig en Njarðvík er á toppnum með betri markatölu.

Afturelding er í sjöunda sæti með 11 stig.

Axel Freyr Harðarson skoraði sigurmark Fjölnis eftir aðeins fimm mínútna leik.

Endurkoma ÍR á Seltjarnarnesi

ÍR gerði góða ferð á Seltjarnarnes og lagði Gróttu að velli, 3:1.

ÍR er nú í fimmta sæti með 12 stig en Grótta er í áttunda sæti með 10 stig.

Arnar Daníel Aðalsteinsson, varnarmaður Gróttu, fékk beint rautt spjald í liði Gróttu eftir aðeins 16 mínútna leik og var markalaust í leikhléi.

Í upphafi síðari hálfleik kom Tómas Orri Róbertsson tíu Gróttumönnum í forystu.

Grótta hélt ÍR í skefjum lengi vel en á 77. mínútu jafnaði Bergvin Fannar Helgason metin fyrir gestina úr Breiðholti.

Bragi Karl Bjarkason kom ÍR-ingum yfir aðeins þremur mínútum síðar og Guðjón Máni Magnússon innsiglaði sigurinn með þriðja markinu í uppbótartíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert