Markaveisla í Úlfarsárdalnum

Alda Ólafsdóttir skoraði tvívegis fyrir Fram í kvöld.
Alda Ólafsdóttir skoraði tvívegis fyrir Fram í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Fram hafði betur gegn Grindavík, 4:2, í fjörugum leik í 8. umferð 1. deildar kvenna í knattspyrnu í Úlfarsárdal í kvöld.

Með sigrinum fór Fram upp í fimmta sæti deildarinnar, þar sem liðið er með 11 stig. Grindavík er í sjöunda sæti með tíu stig.

Alda Ólafsdóttir kom Fram yfir á 24. mínútu áður en Unnur Stefánsdóttir svaraði með tveimur mörkum í röð með stuttu millibili.

Unnur skoraði á 36. og 38. mínútu og staðan því skyndilega orðin 1:2, Grindavík í vil.

Eyrún Vala Harðardóttir jafnaði hins vegar metin fyrir Fram stuttu síðar og staðan því 2:2 í leikhléi.

Í upphafi síðari hálfleiks skoraði Alda annað mark sitt og þriðja mark Fram. Er hún nú búin að skora sex mörk í átta deildarleikjum á tímabilinu.

Eftir rétt rúmlega klukkutíma leik skoraði Telma Steindórsdóttir fjórða mark Framarar, staðan orðin 4:2 og reyndust það lokatölur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert