Mér fannst við eiga sigurinn skilinn

Shaina Ashouri skoraði annað mark Víkings í kvöld.
Shaina Ashouri skoraði annað mark Víkings í kvöld. Ljósmynd/Óðinn Þórarinsson

„Ég er ánægður,“ sagði John Andrews, þjálfari Víkings, eftir 3:2-sigur liðsins gegn Stjörnunnni í 10. umferð Bestu deildar kvenna í knattspyrnu í Fossvoginum í kvöld.

„Að koma til baka, 2:1 undir eftir að gefa klaufaleg mörk var frábært. Frábær karakter og mikið hjarta, sérstaklega frá leikmönnum sem komu inn á,“ sagði Andrews í viðtali við mbl.is eftir leik.

Víkingur fékk tvö mörk á sig gegn gangi leiksins en lét það ekki slá sig út af laginu. Andrews var ánægður með andann innan liðsins.

„Við vorum mun meira með boltann í leiknum en við erum ungt lið og margar af okkar leikmönnum eru nýjar í Bestu deildinni svo við þurfum að gera ráð fyrir einum, tveimur mistökum. Það jákvæða voru hins vegar viðbrögð liðsins við mistökunum,“ sagði Andrews.

Sigurinn í dag var annar sigur Víkinga í röð. Liðið gerði sér lítið fyrir og lagði Breiðablik, 2:1, í síðustu viku og var Andrews ánægður að liðið sé byrjað að tengja saman sigra.

„Þetta er í fyrsta skipti á tímabilinu sem við vinnum tvo í röð. Við höfum verið mikið að vinna, gera jafntefli og síðan tapa en nú tengjum við saman tvo sigra. Mér fannst við eiga það skilið í dag og mér fannst það líka í síðustu viku,“ sagði Andrews.

Víkingur mætir Fylki í Árbænum í næstu viku. Andrews býst við hörkuslag.

„Á síðasta tímabili var einn af okkar mikilvægustu leikjum gegn Fylki og þetta verður án efa einn af mikilvægustu leikjum þessa tímabils. Frábær þjálfari þar, mikið af frábærum þjálfurum í þessari deild og margir góðir leikmenn. Við horfðum á þær spila gegn Þrótti í gær og þær voru mjög góðar. Við þurfum að vera á tánum og klár í slaginn,“ sagði Andrews að lokum.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert