Rúmenar unnu E-riðilinn – Belgía og Slóvakía áfram en Úkraína úr leik

Razvan Marin fagnar eftir að hafa jafnað fyrir Rúmena gegn …
Razvan Marin fagnar eftir að hafa jafnað fyrir Rúmena gegn Slóvökum. AFP

Rúmenía tryggði sér sigur í E-riðli Evrópumóts karla í knattspyrnu í dag með því að gera jafntefli við Slóvakíu, 1:1, í lokaumferð riðilsins í dag. Belgía og Úkraína gerðu þá markalaust jafntefli.

Það þýðir að öll fjögur liðin enduðu með fjögur stig. Rúmenía vann riðilinn, Belgía hafnaði í öðru sæti og Slóvakía í þriðja. Öll fara þau áfram í 16-liða úrslit á meðan Úkraína situr eftir með sárt ennið með lökustu markatöluna.

Romelu Lukaku fékk sannkallað dauðafæri eftir aðeins sjö mínútna leik. Hann slapp þá einn í gegn vinstra megin í vítateignum eftir glæsilega stungusendingu Kevins De Bruyne en hitti boltann illa og Anatoliy Trubin í marki Úkraínu varði vel með fótunum.

Þegar fyrri hálfleikur var tæplega hálfnaður átti Roman Yaremchuk hörkuskot fyrir utan vítateig en það fór beint á Koen Casteels í marki Belgíu sem greip boltann í annarri tilraun.

Belgar misstu boltann snarlega í kjölfarið, Úkraína geystist í skyndisókn en skot Artems Dovbyks úr D-boganum var slakt og fór nokkuð framhjá markinu.

Eftir rúmlega hálftíma leik átti De Bruyne lúmska tilraun beint úr aukaspyrnu af hægri kanti þar sem hann ætlaði að lauma boltanum í nærhornið en hafnaði hann í hliðarnetinu.

De Bruyne átti fína tilraun fyrir utan vítateig skömmu áður en flautað var til leikhlés en skotið fór beint á Trubin sem greip boltann.

Markalaust var því í leikhléi.

Strax í upphafi síðari hálfleiks gerði Jérémy Doku sig líklegan til að koma Belgíu í forystu en  tveir varnarmenn Úkraínu hentu sér fyrir skot hans af vítateigslínunni og boltinn fór aftur fyrir endamörk.

Stuttu síðar komst hann í gott færi til að gefa fyrir vinstra megin í vítateignum en hitti ekki á neinn samherja þegar hann gaf þversendingu.

Á 73. mínútu reyndi Yannick Ferreira Carrasco skot fyrir utan vítateig en Trubin var vel á verði í markinu.

Skömmu síðar kom Artem Dovbyk sér í gott færi í teignum en Wout Faes gerði vel í að koma sér fyrir skotið.

Dovbyk var aftur á ferðinni stuttu seinna, á 78. mínútu, er hann tók skot hægra megin úr vítateignum en það hafnaði í hliðarnetinu.

Varamaðurinn Ruslan Malinovskiy átti svo athyglisverða tilraun á 82. mínútu þegar hann skaut í stöngina beint úr hornspyrnu frá hægri.

Úkraína fékk aðra hornspyrnu í kjölfarið, Malinovskiy fann varamanninn Taras Stepanenko á fjærstönginni en skalli hans fór rétt yfir markið.

Fimm mínútum fyrir leikslok átti varamaðurinn Johan Bakayoko skot af vítateigslínunni í kjölfar skyndisóknar en hitti boltann engan veginn og skotið fór framhjá markinu.

Í næstu sókn átti Malinovskiy þrumuskot fyrir utan vítateig sem stefndi að marki en hafnaði í maganum á Timothy Castagne sem lá óvígur eftir.

Í uppbótartíma átti Georgii Sudakov glæsilegan sprett í gegnum vörn Belga sem sváfu á verðinum, tók skotið en það fór beint á Casteels.

Fleiri urðu færin ekki og er Úkraína úr leik. 

Jafntefli nægði Rúmeníu til að vinna riðilinn

Í leik Slóvakíu og Rúmeníu byrjuðu Slóvakar betur en það var hins vegar Andrei Ratiu í liði Rúmeníu sem fékk fyrsta almennilega færi leiksins

Hann klöngraðist í gegnum vörn Slóvakíu á tíundu mínútu og náði góðu skoti sem Martin Dúbravka í marki Slóvakíu varði vel til hliðar áður en Ianis Hagi skaut hátt yfir markið úr frákastinu hægra megin í vítateignum.

Um miðjan fyrri hálfleik tók Lukás Haraslin hættulega aukaspyrnu af vinstri kanti sem fór í gegnum allan pakkann og rétt framhjá fjærstönginni.

Skömmu síðar, á 24. mínútu, náðu Slóvakar forystunni. Juraj Kucka átti þá glæsilega fyrirgjöf af hægri kantinum, fann Ondrej Duda sem náði góðum skalla niður í bláhornið hægra megin, staðan orðin 1:0.

Á 37. mínútu jöfnuðu Rúmenar hins vegar metin. David Hancko felldi þá Hagi á vítateigslínunni og fengu Rúmenar upphaflega aukaspyrnu. Eftir athugun VAR var dómnum hins vegar breytt í vítaspyrnu.

Á vítapunktinn steig Razvan Marin og skoraði af miklu öryggi, 1:1.

Skömmu áður en flautað var til hálfleiks fengu Rúmenar gott tækifæri til þess að ná forystunni.  Denis Dragus brunaði þá fram í skyndisókn, ákvað að fara sjálfur í stað þess að gefa á samherja sína beggja vegna, tók skotið en það fór nokkuð framhjá úr kjörstöðu.

Staðan því 1:1 í hálfleik.

Haraslin gerði sig líklegan snemma í síðari hálfleik þegar hann tók skotið úr mjög þröngu færi vinstra megin í teignum en Florin Nita í marki Rúmeníu varði vel.

Eftir tæplega klukkutíma leik gerði Razvan Marin sig líklegan í vítateig Slóvaka þegar hann þrumaði að marki en Dúbravka varði vel. Boltinn barst til Dragus í kjölfarið sem reyndi einnig skot en það fór rétt yfir markið.

Eftir rúmlega klukkutíma fékk Slóvakía frábært færi til þess að ná forystunni að nýju. Eftir laglegt spil barst boltinn til David Strelec sem náði föstu skoti af vítateigslínunni en Nita varði vel með vinstri fæti.

Skömmu síðar var Haraslin aftur á ferðinni þegar hann skot hans vinstra megin úr vítateignum fór rétt framhjá fjærstönginni.

Fátt markvert gerðist eftir þetta og sættust liðin að lokum á jafnan hlut, sem nægir þeim báðum til að komast áfram.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

EM karla E-riðill opna loka
kl. 17:53 Leik lokið Báðum leikjum lýkur með jafntefli sem þýðir að Rúmenía vinnur riðilinn og Úkraína er úr leik þrátt fyrir að vinna sér inn fjögur stig!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert