Sjöunda sætið hræðir mig ekki

Monica Wilhelm í leiknum í kvöld.
Monica Wilhelm í leiknum í kvöld. mbl.is/Eyþór Árnason

„Mér fannst þetta virkilega erfiður leikur en ég er ánægð með okkar lið að halda áfram leikinn til enda,“ sagði Monica Elisabeth Wilhelm markvörður Tindastóls sem hafði nóg að gera þegar lið hennar tapaði 4:1 fyrir FH í Hafnarfirði í kvöld þegar síðustu leikir 10. umferðar efstu deildar kvenna fór fram. 

FH ætlaði sér að pressa gríðarlega í byrjun en markvörðurinn sagði sitt lið hafa að einhverju leiti náð vopnum sínum. „Okkur reyndist erfitt að lenda tveimur mörkum undir en náðum síðan einu til baka en tókst ekki meira og nú þurfum við bara að vinna í hlutum  til bæta okkur og koma sterkari í næstu viku.“

„Þú mátt alveg búast við að öll liðin komi af svona krafti og það gerði FH rækilega með fjóra í framlínunni en við þurfum að hugsa upp eitthvað til að mæta því, sem tók okkur tíma en við gerðum í seinni hálfleik og ég er ánægð með hann.  Engu að síður er margt sem við þurfum að bæta hjá okkur og munu einbeita okkur að því fyrir næstu leiki.“ 

Tindastóll er sem stendur í 7. sæti deildarinnar með 10 stig eftir jafnmarga leiki, Þróttur er næsta lið fyrir ofan líka með 10 stiga en Stjarnan á eftir með 9 stig.  „Við viljum auðvitað vera í efri hlutanum en þetta eru bara fyrstu leikirnir í seinni umferð og ég hef fulla trú á liðinu okkar, að við munum bæta okkur.  Við erum í sjöunda sæti núna og en það hræðir mig ekki, því liðið er gott og leggur mikið á sig svo ég á ekki von á öðru en að við komumst í gang,“ bætti Monica við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert