Víkingur með baráttusigur í Fossvoginum

Hafdís Bára Höskuldsdóttir á fullri ferð á Víkingsvellinum í kvöld …
Hafdís Bára Höskuldsdóttir á fullri ferð á Víkingsvellinum í kvöld en hún skoraði fyrsta mark Víkings. Ljósmynd/Óðinn Þórarinsson

Víkingur hafði betur gegn Stjörnunni, 3:2, í 10. umferð Bestu deildar kvenna í knattspyrnu í Fossvoginum í kvöld. Úrslitin þýða að Víkingur er í fimmta sæti með 15 stig en Stjarnan er í áttunda sæti með átta stig. 

Leikurinn byrjaði nokkuð rólega, liðin skiptust á að vera með boltann og voru í erfiðleikum með að spila sig í gegnum fyrstu pressuna. 

Stjarnan komst yfir á 18. mínútu með marki frá Huldu Hrund Arnarsdóttur sem kom eftir hornspyrnu frá Gyðu Kristínu Gunnarsdóttur. Eftir smá klafs í teignum datt boltinn fyrir Huldu sem hamraði boltanum í netið. 

Víkingur fékk hörkufæri um miðbik fyrri hálfleiks. Þá vann Shaina Ashouri boltann ofarlega á vellinum, kom boltanum á Selmu Dögg Björgvinsdóttir í miðjum teignum sem náði skoti en markaskorarinn Hulda Hrund Arnarsdóttir komst fyrir það. Þá datt boltinn fyrir Sigdísi Evu Bárðardóttur sem átti skot sem Anna María Baldursdóttir komst fyrir. 

Víkingur hélt áfram að sækja og var töluvert meira með boltann. Á 41. mínútu jafnaði Hafdís Bára Höskuldsdóttir metin fyrir Víking með glæsilegri hælspyrnu eftir fyrirgjöf frá Bergdísi Sveinsdóttur á hægri kantinum. 

Aðeins mínútu síðar komst Stjarnan aftur yfir með svakalegu marki. Þá var það Esther Rós Arnarsdóttir sem fékk boltann á lofti fyrir utan teiginn. Hún kassaði boltann fyrir sig og lyfti honum yfir Birtu Guðlaugsdóttur í samskeytin. Staðan, 2:1 fyrir Stjörnunni í hálfleik. 

Víkingur byrjaði síðari hálfleikinn af miklum krafti. Boltinn barst til Shaina Ashouri í markteignum og átti hún skot í slána. Stuttu síðar datt boltinn fyrir Bergdísi Sveinsdóttur sem átti hörkuskot en Auður Scheving í marki Stjörnunnar varði frábærlega frá henni. 

Á 65. mínútu skoraði Shaina Ashouri jöfnunarmark Víkings eftir skyndisókn. Emma Steinsen kom með langan bolta fram sem Hafdís Bára Höskuldsdóttir var á undan Auði Scheving í. Hafdís renndi boltanum síðan á Ashouri sem kláraði í autt markið. 

Tveimur mínútum síðar tók Víkingur forystuna með marki frá fyrirliðanum Selmu Dögg Björgvinsdóttur. Emma Steinsen kom með fyrirgjöf sem Katrín Erla Clausen hreinsaði frá, beint á Selmu sem skoraði með frábæru skoti. 

Víkingur hélt áfram að vera sterkari aðilinn í kjölfarið og var líklegra að bæta við marki heldur en Stjarnan að jafna metin. Stjörnukonur áttu þó nokkrar skottilraunnir sem Birta Guðlaugsdóttir varði vel. Lokaniðurstöður í dag, 3:2 sigur Víkings. 

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Víkingur R. 3:2 Stjarnan opna loka
90. mín. Það verða að minnsta kosti þrjár mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert