Heiðruðu 88 ára landsliðsmann

Björn Helgason tekur við treyjunni frá Guðmundi Torfasyni, formanni knattspyrnudeildar …
Björn Helgason tekur við treyjunni frá Guðmundi Torfasyni, formanni knattspyrnudeildar Fram og fyrrverandi landsliðsmanni. Guðmundur Magnússon og Elmar Atli Garðarsson, fyrirliðar Fram og Vestra, standa hjá þeim. Ljósmynd/Halldór Sveinbjörnsson

Björn Helgason, fyrrverandi landsliðsmaður í knattspyrnu og leikmaður með bæði Ísfirðingum og Fram, var heiðraður af Frömurum fyrir viðureign Vestra og Fram í Bestu deild karla á Ísafirði í kvöld.

Björn, sem er 88 ára gamall, lék með ÍBÍ frá Ísafirði þegar félagið lék í fyrsta skipti í efstu deild árið 1962 og hafði leikið með liðinu í 2. deild, eins og næstefsta deildin hét þá, næstu ár á undan.

Hann gekk síðan til liðs við Framara árið eftir og spilaði með þeim í efstu deild árið 1963 en sneri svo aftur vetur og lék með ÍBÍ til ársins 1973. 

Eftir það spilaði hann m.a. með Vestfjarðaliðunum Stefni frá Suðureyri og Bolungarvík.

Björn lék tvo A-landsleiki, þann fyrri gegn Noregi í undankeppni Ólympíuleikanna árið 1959, þá sem leikmaður í næstefstu deild, og þann síðari gegn Bretlandi, aftur í undankeppni Ólympíuleikanna, árið 1963.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert