„Pirrandi að vinna ekki leiki“

Benoný Breki Andrésson og Kristján Flóki Finnbogason fagna öðru marka …
Benoný Breki Andrésson og Kristján Flóki Finnbogason fagna öðru marka þess síðarnefnda í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Mér fannst þetta vera kaflaskipt. Við áttum fyrri hálfleikinn og hefðum getað verið tveimur mörkum yfir eftir hann. Síðan koma þeir sterkir inn í síðari hálfleik og jafna,“ sagði Aron Sigurðarson, leikmaður KR, eftir að liðið gerði jafntefli við Fylki, 2:2, í Bestu deildinni í knattspyrnu í kvöld.

„Við komumst aftur yfir í næstu sókn og þá eigum við bara að klára leikinn. Síðan er það eiginlega saga sumarsins, það eru klaufamistök í öðru markinu, þeir skora og halda þetta út.

Við fáum alveg færi til að klára leikinn en þau fóru ekki inn í dag. Það er pínu brekka. Við þurfum að rífa okkur upp og gerum það allir saman,“ hélt Aron áfram er mbl.is ræddi við hann eftir leik.

Þörf á kaldari haus

Spurður hvað honum þótti hafa mátt fara betur í leik KR í kvöld sagði Aron:

„Það er erfitt að segja beint eftir leik. Það er kannski að vera með aðeins kaldari haus og fara ekki inn í skelina eða á taugum þegar þeir jafna.

Það var nægur tími eftir og við hefðum átt að halda áfram að spila okkar leik. Við gerðum það drulluvel í svona 70 mínútur af leiknum fannst mér.

Við hefðum þurft að vera aðeins kaldari, þora að vera með boltann þó það væri jafnt og lítið eftir af leiknum. Við hefðum átt að halda áfram að keyra á þetta fannst mér.“

Aron Sigurðarson í fyrri leik liðanna í vor.
Aron Sigurðarson í fyrri leik liðanna í vor. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Tilvalinn dagur til þess

KR vann síðast deildarleik þann 20. maí síðastliðinn og viðurkenndi hann að örvænting væri farin að gera vart við sig vegna þess.

„Já auðvitað. Auðvitað er ógeðslega pirrandi að vinna ekki leiki fyrir okkur sjálfa, félagið og aðdáendurna sem eru að koma hingað að styðja okkur. Við viljum gefa þeim sigur og viljum gefa þeim góðan fótbolta.

Þetta var tilvalinn dagur fyrir það í dag en það gerðist ekki. Við þurfum bara að taka góða æfingaviku núna og mæta fullir sjálfstrausts í Stjörnuleikinn næst og keyra á þetta,“ sagði Aron að lokum við mbl.is.

KR fær Stjörnuna í heimsókn í 13. umferð Bestu deildarinnar laugardaginn 6. júlí.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert