Rúnar: Ég var brjálaður eftir leikinn

Már Ægisson skoraði fyrir Fram og á hér í höggi …
Már Ægisson skoraði fyrir Fram og á hér í höggi við Benedikt V. Warén. Ljósmynd/Halldór Sveinbjörnsson

Vestri mætti Fram í blískaparveðri á Ísafirði í Bestu deild karla í fótbolta í dag, og endaði leikurinn með 3:1 sigri Fram.

Rúnar Kristinsson ræddi við mbl.is eftir leikinn.

Rúnar til hamingju með sigurinn, hver eru fyrstu viðbrögð?

„Takk fyrir, það er bara geggjað að koma hingað á Ísafjörð og njóta dagsins, hér erum við búnir að vera síðan 9 í morgun. Þetta er búið að vera frábært, vallaraðstæður frábærar, veðrið búið að vera gott og leikið við okkur og fallegt á Ísafirði. Við erum gríðarlega ánægðir að taka 3 stig og spila góðan fótboltaleik."

Nú er þetta fyrsti sigurinn í langan tíma og þið hefðuð geta skorað miklu fleiri mörk, hvað finnst þér um það?

„Ég var brjálaður eftir leikinn, brjálaður að við nýttum ekki færin betur og unnum hérna 5/6-0. Ég er líka brjálaður yfir því að við gefum þeim mark hérna í restina á silfurfati af því að við erum kærulausir. Við opnum þá trekk í trekk og það vantar eitthvað drápseðli í síðustu sendingu. Kannski eru þetta bara gæði sem vantar. Ég er hundfúll því markatala getur og mun skipta máli."

Ef þið hefðuð tapað í dag þá hefðuð þið verið komnir í fallbaráttu en sigurinn skilar ykkur nánast í Evrópubaráttu. Hvernig líst þér á framhaldið?

Rúnar Kristinsson var ánægður með sigurinn en hefði viljað mun …
Rúnar Kristinsson var ánægður með sigurinn en hefði viljað mun fleiri mörk. Ljósmynd/Kristinn Steinn

„Ég ætla nú kannski að segja það en það eru leikir á morgun og margt getur breyst. Við erum búnir að vera viðloðandi efri baráttuna allt tímabilið. Við erum búnir að eiga sex lélega leiki í röð, einn í bikar og fimm í deild og það hefur verið rýr uppskera. Þrjú stig fyrir þennan leik í einhverjum fimm leikjum eftir mjög góða byrjun.

Það er gott að byrja seinni umferðina svona. Það sýnir að við erum ekki dauðir úr öllum æðum. Við spiluðum góðan bolta í dag og þurfum að gera meira svona og nýta færin okkar betur."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert