Ákveðin kúnst að læra þetta

Arnór Smárason í leik með ÍA gegn Þór á Akureyri …
Arnór Smárason í leik með ÍA gegn Þór á Akureyri síðasta sumar. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Arnór Smárason, fyrirliði ÍA, var að vonum ánægður með 3:2-sigur liðsins á Val í 12. umferð Bestu deildarinnar í knattspyrnu í kvöld.

„Þetta sýnir bara liðsheildina, holninguna og karakterinn í þessu liði akkúrat núna. Við byrjum illa. Það voru smá breytingar í öftustu línu og það tók smá tíma að koma okkur í gang.

En um leið og við jöfnuðum og fengum 1:1 markið þá töluðum við aðeins saman. Við söfnuðum öllum saman og breyttum þessu aðeins. Við urðum aðeins þéttari, allt liðið. Við vorum aðeins of slitnir í byrjun,” sagði Arnór í samtali við mbl.is eftir leik.

Svo komumst við í 2:1 en byrjuðum seinni hálfleikinn einnig ekki nógu vel og þeir ná að jafna. Ég er ótrúlega stoltur af þessu liði, að halda áfram, koma til baka og ná að knýja fram sigur í lokin.

Þetta lýsir liðsandanum mjög vel, að ná líka inn þessu marki í lokin og vinna Val á heimavelli. Það er helvíti gaman,” hélt hann áfram.

Valur er frábært lið

ÍA byrjaði illa í báðum hálfleikjum. Beðinn um skýringu á því sagði Arnór:

„Við megum ekki gleyma því líka að Valur er frábært lið og þeir eru fljótir að refsa. Þú verður að vera tilbúinn, alltaf, á móti svona leikmönnum. Þeir finna alltaf svæði og eru góðir.

En við tókum okkur saman í báðum hálfleikjum eftir lélega byrjun og ég er ógeðslega ánægður með þetta.”

Hefðum tekið þessari stöðu fyrir mót

ÍA er nýliði í Bestu deildinni en hefur átt mjög gott tímabil til þessa þar sem liðið er í fjórða sæti með 20 stig. Arnór horfir spenntur til framhaldsins.

„Það er bara skemmtilegt. Við erum komnir í ágætis stöðu. Þetta er staða sem við hefðum klárlega tekið fyrir mót. En að sama skapi erum við á fyrsta tímabili og erum líka að læra aftur að vinna leiki í efstu deild.

Við erum að læra það að þegar gengur vel þarf að halda áfram en ekki fara fram úr sér. Þetta er alveg ákveðin kúnst að læra þetta líka. Við erum á góðri leið en það er bara klisjan; við tökum einn leik fyrir í einu,” sagði hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert