„Besti markmaður í þessari deild“

Arnþór Atli í baráttu í kvöld.
Arnþór Atli í baráttu í kvöld. mbl.is/Eyþór

„Ég sá boltann ekki inni í markinu frá mínu sjónarhorni,“ sagði Arnþór Ari Atlason, markaskorari HK um fyrsta mark KA í 2:1 tapi HK í Bestu deild karla í Kórnum í kvöld.

„Nú veit ég ekki hvor dæmdi markið, mér fannst Villi (Vilhjálmur Alvar Þórarinsson, dómari leiksins) vera miklu nær þessu og hann gerði ekki neitt en línuvörðurinn sem er lengst frá flaggar þetta mark held ég. Þá er þetta bara þannig en að mínu viti var þetta ekki komið yfir línuna,“ sagði Arnþór í viðtali við mbl.is eftir leikinn.

Annað umdeilanlegt atvik var þegar leikmaður KA virtist fá boltann í höndina inni í teig en það var ekkert dæmt.

„Þetta var hundrað prósent víti undir lokinn. Hann ver hann, er með höndina ekki upp við líkamann og það er bara hendi. Ógeðslega svekkjandi en bara áfram gakk.“

 Var þá dómgæslan ástæðan fyrir tapinu?

„Nei alls ekki, ég get alveg viðurkennt það við vorum undir í baráttunni, sérstaklega í fyrri hálfleik svo skora þeir mark snemma í seinni hálfleik og mér fannst við betri eftir það. Þetta annað mark var mjög klaufalegt sem þeir skora og auðvitað erfitt að vera að elta tveggja marka forystu en náum að minnka muninn því við vorum mjög nálægt því og áttum að fá víti. 

Arnar Freyr Ólafsson varði fullt af skotum, hversu mikilvægur var hann í kvöld?

„Eins og alltaf. Hann er að mínu mati besti markmaður í þessari deild. Fáránlega góður á milli stanganna og eins og í mörgum leikjum í sumar kom hann í veg fyrir að við fengum ekki á okkur fleiri mörk.“

Ívar Örn Jónsson hefur verið meiddur frá því í fjórðu umferð og Atli Arnarsson hefur ekki keppt síðan í lok maí.

„Ívar er að koma til baka. Byrjaður að æfa með okkur að miklu leiti og Atli líka. Það munar um þessa pósta í liðinu, reynslumiklir leikmenn og eru búnir að vera frá í smá tíma svo það er gott að þeir séu að koma inn í þetta aftur.“

Mikil umræða hefur verið um það að HK getur ekki unnið lið sem eru neðar en þeir í töflunni.

„Við höfum talað um það endalaust að það skiptir ekki máli hvað hitt liðið heitir og fengum enn og aftur tækifæri í dag til þess að koma okkur í skemmtilegri baráttu en við erum í núna, sem er á botninum.

Það er pirrandi að nýta það ekki enn og aftur því við fengum tækifæri í fyrra og fyrr í sumar. Við fáum vonandi tækifæri aftur í sumar, þetta er bara um að sækja næstu stig, það er ÍA næst og við ætlum að vinna þá.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert