Fyrri leikurinn í undanúrslitum bikarkeppni kvenna í fótbolta var leikinn í kvöld á Þórsvellinum á Akureyri.
Þór/KA tók á móti Breiðabliki og úr varð jafn og spennandi leikur. Var hann spilaður við erfiðar aðstæður, sterkan norðan vind og bleytu. Eftir venjulegan leiktíma var staðan 0:0 en í framlengingu komu þrjú mörk og Breiðablik fagnaði 2:1 sigri.
Heimakonur sóttu undan vindinum í fyrri hálfleik en tókst varla að skapa sér færi. Blikakonur áttu tvö bestu marktækifærin en boltinn rataði ekki í netið.
Þór/KA fékk þrjár hornspyrnur í hálfleiknum og tvær þeirra fóru bara aftur fyrir endamörk. Þar var verulega illa farið með góð tækifæri á að koma boltanum á hættusvæði í teig Blika.
Seinni hálfleikur byrjaði með því að Blikar komust í kjörið marktækifæri en Shelby Mony varði vel frá Vigdísi Lilju Kristjánsdóttur. Síðan tóku við langir kaflar þar sem fátt markvert gerðist. Liðin reyndu að skapa færi en það vantaði alltaf upp á síðustu sendinguna.
Breiðablik tók smá syrpu þegar kortér var eftir af leiknum og þá komu fjögur góð færi, nánast í sömu sókninni. Shelby Money varði í tvígang en tvö skot fóru yfir mark Þórs/KA.
Á lokakafla leiksins reyndu liðin að kreista út sigurmark en allt kom fyrir ekki og framlengja þurfti leikinn. Framlengingin var nú með fjörugra móti og á 99. mínútu gerði Birta Georgsdóttir vel þegar hún lagði boltann út á Hrafnhildi Ásu Halldórsdóttur, sem gat ekki annað en skorað fyrir Blika. Staðan þá orðin 1:0.
Þór/KA jafnaði um hæl með yfirveguðu skoti frá Söndru Maríu Jessen. Staðan var 1:1 þegar seinni hálfleikur framlengingarinnar hófst.
Breiðablik sótti meira á lokakafla leiksins og sigurmark þeirra kom þegar lítið var eftir af leiknum. Írena Héðinsdóttir Gonzalez skoraði beint úr hornspyrnu, 2:1, og verður markið að skrifast á Shelby Money, markvörð Þórs/KA. Blikakonur fögnuð vel og lengi þessum torsótta sigri.
Úrslitaleikurinn er fyrirhugaður 16. ágúst og á morgun kemur í ljós hvort Valur eða Þróttur komist í úrslit.