Dramatískur sigur ÍA í fimm marka leik

Úr leik Vals og ÍA í deildabikarnum í mars.
Úr leik Vals og ÍA í deildabikarnum í mars. mbl.is/Árni Sæberg

Nýliðar ÍA unnu frækinn sigur á Val, 3:2, þegar liðin áttust við í 12. umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu á Akranesvelli í kvöld.

ÍA er eftir sigurinn áfram í fjórða sæti en nú með 20 stig. Valur er áfram í þriðja sæti með 25 stig.

Valur byrjaði leikinn af feikna krafti og virtist ná forystunni eftir aðeins sex mínútna leik. Jónatan Ingi Jónsson átti þá skot af löngu færi sem fór í Patrick Pedersen sem stóð á vítateigslínunni, breytti þannig um stefnu og hafnaði í netinu.

Helgi Mikael Jónasson dómari dæmdi upphaflega mark en eftir að hafa ráðfært sig við aðstoðardómarann Þórð Arnar Árnason ákvað hann að dæma það af vegna rangstöðu. Pedersen var víðs fjarri því að vera rangstæður og þó Guðmundur Andri Tryggvason hafi verið fyrir innan virtist hann ekki hafa nokkur áhrif á það sem fram fór.

Markið var því ranglega dæmt af. Valsmenn létu það þó ekki á sig fá og héldu áfram að þjarma að heimamönnum.

Á 11. mínútu fékk Sigurður Egill Lárusson boltann frá Guðmundi Andra Tryggvasyni vinstra megin í vítateignum, Sigurður Egill þrumaði í nærhornið en Árni Marinó Einarsson í marki ÍA var mættur þangað og varði.

Þremur mínútum síðar skoraði Valur aftur og að þessu sinni taldi það. Jakob Franz Pálsson átti þá góða sendingu fram á Jónatan Inga sem var sloppinn einn í gegn, tók vel við boltanum, fór framhjá Árna Marinó og lagði boltann í autt markið, 0:1.

Við markið virtust Skagamenn loks vakna af værum blundi. Á 20. mínútu tók Jón Gísli Eyland Gíslason langt innkast hægra megin, Oliver Stefánsson vann skallaboltann á nærstönginni og boltinn barst til Viktors Jónssonar sem þurfti að teygja sig í boltann á markteignum, náði skoti með hælnum sem Frederik Schram í marki Vals varði á einhvern ótrúlegan hátt.

Um miðjan hálfleikinn fékk Tryggvi Hrafn Haraldsson boltann vinstra megin í vítateignum, hann fékk tíma til að athafna sig og reyndi að leggja boltann í fjærhornið en skotið fór framhjá markinu.

Skagamenn sneru taflinu við

Skömmu síðar, á 26. mínútu, jafnaði ÍA metin. Skagamenn sóttu þá hratt í gegnum miðjuna, Marko Vardic fékk boltann og gerði vel í að koma sér í skotstöðu rétt innan vítateigs, náði fínu skoti sem Fredrik varði til hliðar, þar beið Jón Gísli átekta hægra megin í teignum og lagði boltann í netið, 1:1.

Strax í næstu sókn fékk Pedersen boltann eftir að aukaspyrna var tekin fljótt, tók skotið úr D-boganum en var í litlu jafnvægi og skotið fór yfir markið.

Á 36. mínútu náðu Skagamenn svo forystunni. Viktor hirti þá boltann af Jakobi Franz á vallarhelmingi Vals, brunaði fram, var kominn inn í vítateig hægra megin þegar hann ætlaði að renna boltanum þvert fyrir markið á Hinrik Harðarson en fór boltinn af Bjarna Mark Duffield þaðan sem hann lak í netið, sjálfsmark og staðan orðin 2:1.

Skömmu áður en flautað var til leikhlés fékk Viktor kjörið tækifæri til þess að skora þriðja mark ÍA. Steinar Þorsteinsson átti þá góða fyrirgjöf hægra megin úr teignum, beint á kollinn á Viktori sem skallaði í þverslána af örstuttu færi.

Guðmundur Andri átti prýðis tilraun undir lok fyrri hálfleiks en skot hans úr D-boganum sem stefndi að marki fór af varnarmanni og aftur fyrir.

Staðan því 2:1 í leikhléi, ÍA í vil. Valsmenn urðu fyrir tvöföldu áfalli í fyrri hálfleik þar sem bæði Orri Sigurður Ómarsson og Jónatan Ingi þurftu að fara meiddir af velli.

Var sem allur taktur færi úr spili Valsmanna við það að missa þá tvo af velli.

Valsmenn fljótir að jafna metin

Valur mætti hins vegar áræðnari til leiks í síðari hálfleik og jafnaði metin fljótlega, eða á 50. mínútu.

Valsmenn tóku þá stutta hornspyrnu vinstra megin, varamaðurinn Adam Ægir Pálsson gaf fasta sendingu á nærstöngina þar sem annar varamaður, Elfar Freyr Helgason, var mættur og stýrði boltanum í netið með skoti á lofti. Staðan orðin 2:2.

Stuttu síðar náði Pedersen skalla eftir aukaspyrnu Adams Ægis af hægri kanti en hann fór framhjá markinu.

Róaðist leikurinn töluvert í kjölfarið en þegar rúmur stundarfjórðungur var til leiksloka fékk Valur kjörið tækifæri til þess að ná forystunni að nýju.

Jón Gísli þrumaði þá boltanum í samherja sinn Arnór Smárason, boltinn barst til Adams Ægis sem brunaði fram, lagði boltann til hliðar á Pedersen sem var einn gegn Árna Marinó hægra megin í vítateignum, tók skotið en Árni Marinó varði val með fótunum.

Tveimur mínútum síðar átti Steinar góða fyrirgjöf af vinstri kantinum á Viktor sem náði skallanum á fjærstönginni en þurfti aðeins að teygja sig boltann sem fór yfir markið.

Dramatískt sigurmark í lokin

Tveimur mínútum eftir það, á 80. mínútu, átti Jón Gísli góða sendingu á Steinar hægra megin í teignum, hann tók skotið úr nokkuð þröngu færi en það fór af varnarmanni og framhjá markinu.

Þegar leikurinn virtist vera að fjara út skoraði ÍA sigurmarkið á 90. mínútu.

Arnór tók þá aukaspyrnu af vinstri kantinum, Fredrik kýldi hana frá en Skagamenn héldu boltanum. Viktor renndi boltanum svo á Steinar sem lagði hann fyrir sig á vinstri fótinn og skoraði með stórkostlegu skoti hægra megin við D-bogann er hann skrúfaði boltann einfaldlega í fjærhornið.

Skagamenn héldu út og unnu frábæran sigur.

ÍA 3:2 Valur opna loka
90. mín. Steinar Þorsteinsson (ÍA) skorar 3:2 Skagamenn skora í lokin! Arnór tekur aukaspyrnu af vinstri kantinum, Fredrik kýlir hana frá en Skagamenn halda boltanum. Viktor rennir boltanum á Steinar sem leggur hann fyrir sig á vinstri og skorar með stórkostlegu skoti hægra megin við D-bogann, skrúfar hann í fjærhornið!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert