Gott að hafa vindinn með sér

Írena Héðinsdóttir Gonzalez, lengst til hægri, fagnar með samherjum sínum …
Írena Héðinsdóttir Gonzalez, lengst til hægri, fagnar með samherjum sínum í kvöld. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Það þurfti 120 mínútur til að skera út um það hvort Þór/KA eða Breiðablik færi í bikarúrslitaleikinn í fótbolta í ár.

Liðin áttust við á Akureyri í kvöld og vann Breiðablik leikinn 2:1. Sigurmark Blika kom beint úr hornspyrnu en það skoraði Írena Héðinsdóttir Gonzalez.

Kom hún í viðtal strax eftir leik.

„Þetta er nú ekki besta markið sem ég hef skorað á ferlinum en klárlega eitt af þeim mikilvægustu.“

Þið voruð búnar að fá slatta af hornspyrnum, sem Heiða Ragney tók. Svo komst þú bara og settir boltann beint í markið.

„Maður beið bara eftir sínu tækifæri og það var gott að hafa vindinn með sér og það hjálpaði klárlega í þessu marki.“

Það er um að gera að nýta sér veðrið ef það er hægt. Nú er leikurinn nýbúinn og þið eigið eftir að koma ykkur aftur heim. Heldur þú að þig dreymi bikar á eftir?

„Já klárlega. Maður er spenntur.“

Varst þú með í fyrra þegar Breiðablik tapaði bikarúrslitaleiknum?

„Nei ég var farin til Bandaríkjanna í skóla og ég fer aftur núna þannig að ég missi líklega af leiknum aftur. Ég mun klárlega styðja við liðið þótt ég verði úti. Maður hjálpar liðinu sínu eins og hægt er. Ég er búin að vera í Breiðabliki frá sjö ára aldri og þetta er sérlega gaman fyrir mig.“

Þú ert þá á fullu í námi og í hvaða skóla ertu?

„Ég er í Harvard með Ollu og Áslaugu Mundu.“

Eru ekki bara nördar sem komast í Harvard?

„Þetta er bara blanda af því að vera góður í fótbolta og duglegur að læra,“ sagði hin skemmtilega Írena að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert