KA vann í Kórnum og komst úr fallsæti

HK-ingurinn Birkir Valur Jónsson reynir að stöðva Hallgrím Mar Steingrímsson …
HK-ingurinn Birkir Valur Jónsson reynir að stöðva Hallgrím Mar Steingrímsson í Kórnum í kvöld. mbl.is/Eyþór

HK og KA mættust í góða veðrinu inni í Kórnum í kvöld í Bestu deild karla í fótbolta. KA hafði betur, 2:1 og komst upp úr fallsæti með sigrinum.

HK er með 13 stig í 9. sæti og KA er í 10. sæti með 11 stig.

KA-menn byrjuðu leikinn mjög vel og áttu fullt af færum í fyrri hálfleik en fyrsta skot á mark í leiknum tók Atli Þór Jónasson eftir um tíu mínútur. Hann kom sér vel fyrir langt fyrir utan teiginn og þrumaði boltanum niðri í hornið en Steinþór Már Auðunsson gerði mjög vel og varði út af.

Á 13.mínútu fékk svo Daníel Hafsteinsson hættulegt færi og hefði getað komið gestunum út af þegar hann fékk boltann inni í teig en Arnar Freyr Ólafsson átti fyrstu mikilvægu vörsluna hans í fyrri hálfleik. 

Álagið var mikið á Arnari í fyrri hálfleik en 14. mínútu varði hann fast skot sem Sveinn Arnar Hauksson tók  fyrir utan vítateig. Tveimur mínútum síðar gerðu KA-menn vel, skiptu frá hægri yfir á vinstri og þar var Viðar Örn með pláss en Arnar varði í horn. Annað hættulegt færi kom eftir hornspyrnuna en Bjarni Aðalsteinsson náði snertingu á boltann sem var á leiðinni inn í markið þegar Arnar stökk á boltann.

Svo þremur mínútum eftir þetta allt fékk KA aftur færi en í þetta sinn var Daníel Hafsteinsson með fast skot fyrir utan, Arnar varði þetta út í teig en þar var Viðar Örn sem potaði boltanum í netið en hann var langt fyrir innan og flaggið fór á loft.

Hallgrímur Mar fékk ágætis færi eftir um hálftíma þegar hann fékk boltann úti hægra megin og tók sprett inn í teig en skaut rétt yfir.

HK fékk svo loksins annað færi þeirra á 32. mínútu þegar þeir sóttu hratt eftir hornspyrnu. Atli var öskufljótur upp völlinn og fór í skot en það fór rétt framhjá.

KA-menn tóku svo tvö skot til viðbótar en þau fóru bæði framhjá og staðan 0:0 í hálfleik. 

KA byrjaði seinni hálfleikinn betur og náðu loksins að pota inn marki á 51. mínútu en það var Bjarni Aðalsteinsson sem sá um það. KA-menn fengu horn og boltinn endaði hjá Bjarna sem þrumaði boltanum á markið, Arnar greip boltann en virtist vera fyrir innan og markið stóð, 1:0 fyrir KA.

Stuttu eftir markið átti Hallgrímur Mar Steingrímsson tvo skot sem voru varin og augljóst að hann ætlaði sér að skora, sem hann endaði á því að gera á 82. mínútu, 2:0.

HK minnkaði muninn á 90. mínútu með marki frá Arnþóri Ara Atlasyni sem skallaði í netið eftir fyrirgjöf Birnis Breka Burknasonar frá hægri, 2:1.

HK-ingar sóttu grimmt eftir það en náðu ekki að nýta sér þau færi sem þeir fengu,  gerðu m.a. tilkall til vítaspyrnu þegar boltinn virtist fara í hönd norðanmanns, og leikurinn endaði 2:1 fyrir gestunum.

HK 1:2 KA opna loka
90. mín. Fimm mínútum bætt við.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert