„Náðum að knýja fram sigur“

Ívar Örn Árnason, fyriliði KA og Atli Þór Jónasson, sóknarmaður …
Ívar Örn Árnason, fyriliði KA og Atli Þór Jónasson, sóknarmaður HK í leiknum í kvöld. mbl.is/Eyþór

„Mér fannst við spila 90 prósent af leiknum frábærlega,“ sagði Hallgrímur Jónasson, þjálfari KA í Bestu deild karla í fótbolta sem vann HK 2:1 í Kórnum í kvöld. 

„Við náðum að skapa fullt af færum en náðum því miður ekki að skora í fyrri hálfleik og þetta er í annað sinn í sumar sem markmaðurinn þeirra á mjög góðan leik.

Við töluðum um það í hálfleik að við þurfum að halda áfram en vera með varan á og fara ekki með of marga fram því HK-ingar eru mjög sterkir í sumum þáttum leiksins. Halda áfram að vera semí til baka, vera einum fleiri en þeir og passa okkur, mörkinn myndu koma og sem betur fer komu þau.

Mér fannst við vera með sanngjarna 2:0 forystu en svo gerist það sem þeir eru góðir í, setja háan bolta inn í teiginn, eru með stóra leikmenn og fylla teiginn vel og skora mark og þá kemur smá panikk í lokinn síðustu þrjár mínúturnar en þá þýðir ekkert annað en að setja hausinn undir sig og vinna varnarvinnuna og við náum að knýja fram 2:1 sigur sem ég er virkilega sáttur með,“ sagði Hallgrímur í viðtali við mbl.is eftir leikinn.

 Nokkur umdeilanleg atvik gerðust í leiknum. Bæði lið vildu víti og HK-ingum fannst boltinn ekki vera inni í fyrsta markinu.

„Ég get ekki séð það en strákarnir mínir segja að þetta hafi verið mark og ég get ekki ímyndað mér að línuvörðurinn dæmi nema hann sjái boltann inni. Ég veit ekki með boltann í höndina, mínir leikmenn segja ekki en ég er ekki búinn að sjá þetta en Viðar Örn átti hundrað prósent að fá víti í fyrri hálfleik svo ég held þetta myndi þá koma út á jöfnu.“ 

Viðar Örn Kjartansson var í fyrsta sinn í byrjunarliði KA frá því að hann kom í sumar.

„Hann er kominn í betra stand, búinn að æfa vel. Þetta hefur tekið lengri tíma en við héldum að komast á þennan stað og það er mikil samkeppni í KA liðinu. Núna fær hann byrjunarliðsleik því hann á það skilið. Það er frábært, hann er kominn í gott stand, fær 62 mínútur og skapar fullt af usla og fær færi sem við vitum að hann gerir. Hann er góður í að koma sér í færi og góður í návígum svo mörkin munu koma.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert