Úr meiðslum í landsliðsverkefni

Bryndís Arna Níelsdóttir er komin aftur í íslenska landsliðshópinn.
Bryndís Arna Níelsdóttir er komin aftur í íslenska landsliðshópinn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tvær breytingar voru gerðar á íslenska kvennalandsliðinu í fótbolta en næsta verkefni liðsins eru leikir gegn Þýskalandi og Póllandi. Báðir leikmennirnir sem komu inn í hópinn voru nýlega að koma til baka úr meiðslum.

Þær Ólöf Sig­ríður Krist­ins­dótt­ir og Ásta Eir Árna­dótt­ir detta úr hópnum og í þeirra stað koma Bryn­dís Arna Ní­els­dótt­ir og Natasha Anasi.

Þær hafa báðar verið að glíma við meiðsli undanfarið. Natasha var frá í mánuð en sneri til baka í bikarleik í síðustu viku og Bryndís viðbeinsbrotnaði í fyrsta leik tímabilsins með Växjö í Svíþjóð en er byrjuð að spila á ný. Þorsteinn H. Halldórsson, þjálfari íslenska landsliðsins segir þær báðar tilbúnar í verkefnið.

„Natasha spilaði heilan leik í fyrradag og Bryndís hefur tekið þátt í síðustu tveimur leikjum svo þær eru klárar og í fínu standi,“ sagði Þorsteinn en Ísland mætir Þýskalandi 12. júlí á Laugardalsvelli.

Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir úr Breiðabliki og Sædís Rún Heiðarsdóttir hjá Vålerenga, tveir öflugir vinstri bakverðir, hafa báðar verið að glíma við meiðsli og eru ekki í hópnum.

„Sædís er að komast í gang. Þeir ætla að láta hana spila sig hægt og rólega inn í þetta og treysta henni ekki til að spila nógu mikið, að ég tel, fyrir mig þannig ég ákvað að velja hana ekki út af því. Þeir treysta því ekki að fóturinn hennar sé klár í að spila 90 mínútur í landsleikjum sem er töluvert meiri ákefð í heldur en í deildarleikjum í Noregi. Til dæmis gegn Þýskalandi sem er eitt af betri liðum í heimi svo ég ákvað að gefa henni lengri tíma til þess að ná sér.“

Áslaug Munda hefur ekki verið í síðustu hópum en margir vona að hún fari að koma sér aftur af stað enda mjög öflugur leikmaður.

„Það eru alltaf pælingar með Áslaug Mundu, staðan á henni núna er bara ekki góð. Hún kom inn á um daginn á móti Víkingi, var ekki með í síðasta leik vegna veikinda og hefur ekki náð samfellu í því að koma sér af stað þannig að hún var ekki klár.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert