Aldrei allir leikmenn hundrað prósent

Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari.
Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ísland mætir liðunum í efsta og neðsta sæti fjórða riðils í undankeppni EM kvenna í fótbolta 12. og 16. júlí, heima og að heiman.

Þýskaland er með 12 stig á toppi riðilsins en næsti mótherji Íslands eftir það er Pólland sem er í neðsta sæti í riðlinum með núll stig. Ísland er í öðru sæti með sjö stig og Austurríki í þriðja með fjögur.

„Þjóðverjarnir eru besta liðið og eins og staðan er núna eru Pólverjar neðstir en Pólverjarnir hafa verið að gera ágætis hluti undanfarið. Það verður erfitt að spila á móti Póllandi og það er ekkert hægt að horfa á að þetta verði eitthvað vanmat gegn Póllandi því við gerum okkur grein fyrir því að við verðum að eiga tvo góða leiki til að ná í tvö góð úrslit,“ sagði Þorsteinn Halldórsson í viðtali við mbl.is.

Bryn­dís Arna Ní­els­dótt­ir og Natasha Anasi snúa aft­ur í hóp­inn eft­ir meiðsli, Ólög Sigríður Kristjánsdóttir dettur úr hópnum vegna meiðsla og Karólína Lea Vilhjálms´dottir hefur verið tæp í nokkrum verkefnum á þessu ári vegna meiðsla í ökkla. 

„Það fylgir hverjum glugga að það eru aldrei allir leikmenn hundrað prósent. Við tökumst á við það eins og undanfarið, tökum einn leik í einu og sjáum til hvernig standið er á leikmönnum eftir hvern leik.

Allavega gefur maður sér það fyrirfram núna að það eru allir leikmenn heilir þegar við komum saman ef allt gengur að óskum í næstu leikjum sem leikmenn eru að fara að spila. Annars kemur meira í ljós eftir fyrri leikinn en heilt yfir er gott ástand á þeim leikmönnum sem ég valdi núna og vonandi helst það gott í þessa tíu daga sem við erum saman.“

Fleiri leikmenn í Bestu deild sem komu til greina

Í hópnum eru fimm leikmenn sem spila á Íslandi en þeim hefur farið fækkandi.

„Þessir leikmenn eru valdir því þeir eru nógu góðir og hafa gæði og getu til þess að spila í íslenska landsliðinu.

Auðvitað hefur þeim fækkað undanfarið sem eru að spila á Íslandi hjá okkur en það er líka það að ákveðnir leikmenn hafa farið erlendis, voru í landsliðinu fyrir og héldu bara áfram að vera í landsliðinu eftir að þeir fóru erlendis.

Það eru fleiri leikmenn sem spila Íslandi sem komu til greina að velja og gæði þeirra eru alveg nógu góð til þess að vera í landsliðinu.

Það breytir engu hvar leikmenn eru að spila ef þeir eru að gera góða hluti og eru að standa sig.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert