Afturelding skellti Njarðvík – Þróttur af botninum

Elmar Kári Enesson Cogic skoraði tvö mörk fyrir Aftureldingu í …
Elmar Kári Enesson Cogic skoraði tvö mörk fyrir Aftureldingu í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Afturelding gerði frábæra ferð til Njarðvíkur og lagði þar heimamenn að velli, 5:2, í 10. umferð 1. deildar karla í knattspyrnu í kvöld. Þróttur lagði þá Grindavík að velli, 1:0, í Laugardalnum.

Afturelding fór með sigrinum upp í fjórða sæti þar sem liðið er með 14 stig. Njarðvík er í öðru sæti með 20 stig, þremur stigum á eftir toppliði Fjölnis.

Hrannar Snær Magnússon og Enes Kári Enesson Cogic komu Aftureldingu í 2:0 eftir aðeins 16 mínútna leik áður en Tómas Bjarki Jónsson minnkaði muninn fyrir Njarðvík áður en fyrri hálfleikur var úti.

Oumar Diouck jafnaði metin fyrir Njarðvík á 70. mínútu en þá tóku gestirnir úr Mosfellsbæ aftur vel við sér.

Aron Jóhannsson kom Aftureldingu í 3:2 á 77. mínútu, Elmar Kári skoraði annað mark sitt og fjórða mark Mosfellinga fimm mínútum síðar.

Sævar Atli Hugason rak svo smiðshöggið með fimmta markinu þremur mínútum fyrir leikslok.

Í lok leiks fengu þeir Joao Ananias og Erlendur Guðnason, leikmenn Njarðvíkur, báðir beint rautt spjald.

Fyrsta tap Haralds Árna

Í leik Þróttar og Grindavíkur skoraði hinn 18 ára gamli Liam Daði Jeffs, sonur Ian David Jeffs, sigurmarkið tveimur mínútum fyrir leikhlé.

Þróttur fór með sigrinum af botninum og er nú í 11. og næstneðsta sæti með níu stig. Grindavík er í fimmta sæti með 13 stig.

Um fyrsta tap þjálfarans Haralds Árna Hróðmarssonar við stjórnvölinn hjá Grindavík var að ræða en liðið hafði fyrir leik kvöldsins unnið fyrstu þrjá leikina undir hans stjórn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert