ÍBV í þriðja sætið – Leiknir áfram á sigurbraut

Víðir Þorvarðarson skoraði tvívegis fyrir ÍBV í dag.
Víðir Þorvarðarson skoraði tvívegis fyrir ÍBV í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

ÍBV vann öruggan sigur á Keflavík, 5:0, þegar liðin áttust við í 10. umferð 1. deildar karla í knattspyrnu í Vestmannaeyjum í dag. Á sama tíma hafði Leiknir úr Reykjavík betur gegn Dalvík/Reyni, 1:0, á Dalvík.

ÍBV fór með sigrinum upp fyrir Grindavík og í þriðja sæti deildarinnar, þar sem Eyjamenn eru nú með 16 stig. Keflavík er í sjöunda sæti með 11 stig.

Eftir markalausan fyrri hálfleik setti ÍBV í fluggír í þeim síðari.

Sigurður Arnar Magnússon braut ísinn áður en Oliver Heiðarsson og Arnar Breki Gunnarsson bættu við mörkum.

Víðir Þorvarðarson skoraði svo tvívegis undir lokin.

Þriðji sigur Leiknis í röð

Omar Sowe reyndist hetja Leiknis á Dalvík. Skoraði hann sigurmarkið úr vítaspyrnu eftir tæplega klukkutíma leik.

Leiknir hefur nú unnið þrjá leiki í röð og er kominn í sjötta sætið, þar sem liðið er með 12 stig.

Dalvík/Reynir er í 11. og næstneðsta sæti með 11 stig.

Jafnt í Breiðholti

ÍR og Þór frá Akureyri mættust loks í Breiðholti og skildu jöfn, 1:1.

ÍR er í fimmta sæti með 13 stig og Þór í níunda sæti með 10 stig.

Fannar Daði Malmquist Gíslason kom Þór í forystu eftir aðeins átta mínútna leik.

Guðjón Máni Magnússon jafnaði metin eftir tæplega klukkutíma leik og þar við sat.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert