Máni með þrennu er Fjölnir fór á toppinn

Máni Austmann Hilmarsson skoraði þrennu á sjö mínútum í dag.
Máni Austmann Hilmarsson skoraði þrennu á sjö mínútum í dag. mbl.is/Óttar Geirsson

Máni Austmann Hilmarsson skoraði þrennu fyrir Fjölni þegar liðið vann öruggan sigur á Gróttu, 5:2, í 10. umferð 1. deildarinnar í knattspyrnu í Grafarvogi í dag.

Fjölnir fór með sigrinum upp í efsta sæti deildarinnar þar sem liðið er með 23 stig, þremur meira en Njarðvík sem á leik til góða og getur endurheimt toppsætið með sigri á Aftureldingu í kvöld.

Grótta er áfram í áttunda sæti með tíu stig.

Kristófer Orri Pétursson, fyrirliði Gróttu, kom gestunum frá Seltjarnarnesi í forystu á 16. mínútu áður en Orri Þórhallsson jafnaði metin sex mínútum síðar.

Staðan í leikhléi var 1:1 en í síðari hálfleik opnuðust flóðgáttir.

Máni skoraði fyrst á 56. mínútu, aftur á 59. mínútu og fullkomnaði svo þrennuna með marki úr vítaspyrnu á 63. mínútu.

Staðan orðin 4:1 og Máni búinn að skora þrennu á aðeins sjö mínútum.

Varamaðurinn Sigurvin Reynisson kom Fjölni í 5:1 stundarfjórðungi fyrir leikslok áður en Pétur Theodór Árnason skoraði sárabótamark fyrir Gróttu fimm mínútum fyrir leikslok.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert