Steig upp og reif liðið með sér

Már Ægisson með boltann í leiknum í kvöld.
Már Ægisson með boltann í leiknum í kvöld. mbl.is/Óttar

„Rúnar sagði okkur að rífa okkur í gang í seinni hálfleik. Taka þetta á næsta stig, vera fastari fyrir og spila almennilegan fótbolta,“ sagði Már Ægisson, leikmaður Fram í Bestu deild karla eftir naumt, 2:1 tap gegn Íslands- og bikarmeisturum Víkings í kvöld. 

Framarar voru betra liðið í seinni hálfleik og sóttu grimmt en gátu ekki fundið jöfnunarmarkið. 

„Ég held við höfum verið þreytti eftir leikinn á fimmtudaginn. Það var orkuleysi í fyrri hálfleik en sem betur fer náðum við að stíga smá upp í seinni og sýndum smá karakter en því miður gekk þetta ekki upp í dag, “ sagði Már í viðtali við mbl.is eftir leikinn. 

Framarar byrjuðu mótið af miklum krafti en hafa verið í brekku undanfarið og einungis unnið einn af síðustu fimm leikjum í deildinni. 

„Við byrjuðum mjög vel en svo missum við leikmenn eins og Kennie og það sést hversu mikilvægur hann er. Áður en hann meiddist þá töpuðum við held ég einum leik á móti Víking og um leið og hann fer þá fer þetta svolítið niður á við, ég vil meina að hann sé mjög mikilvægur hlekkur í liðinu.” 

Miðvörðurinn Kennie Chopart fékk tvö hörku færi þegar hann var búinn að koma sér fyrir í efstu línu, átti tvö skot á markið og nokkur í áttina að því. 

„Ég held að hann hafi verið graður í að skora, hann steig upp og reif liðið með sér og við sóttum ágætlega í seinni.“

Már fékk sjálfur eitt dauða færi undir lokinn þegar hann keyrði inn á teiginn og skaut úr mjög þröngu færi þar sem margir hefðu sent hann fyrir. 

„Ég leit upp og sá eiginlega engan fyrir þannig ég reyndi að negla honum á nær og vona það besta en það gekk ekki alveg.“

Fram er með 16 stig í sjötta. sæti, með jafn mörg stig og Stjarnan sem er í sjöunda. 

„Markmiðið er að vera í efri hlutanum og berjast um Evrópusæti og ég get alveg séð okkur gera það.“

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert