Þurfum að þora að spila

Þorsteinn Halldórsson.
Þorsteinn Halldórsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við þurfum að þora að spila boltanum í gegnum þær og leita að réttu leiðunum til þess að refsa þeim og skora hjá þeim,“ sagði Þorsteinn H. Halldórsson þjálfari íslenska kvennalandsliðsins um Þýskaland en Ísland mætir liðinu 12. júlí á Laugardalsvelli.

Leikurinn er næst síðasti leikur Íslands í undankeppni EM. Ísland er í öðru sæti í riðlinum með sjö stig. Ísland tapaði 3:1 í fyrri leik liðanna en sigur myndi tryggja íslenska liðinu sæti í lokakeppni EM 2025.

„Nú eru Þjóðverjarnir kannski farnir að undirbúa sig fyrir Ólympíuleikana og ég veit ekki hvernig þeir stilla upp,“ sagði Þorstein á blaðamannafundi á föstudaginn.

„Ég veit ekki hvort að leikurinn gegn Austurríki fjórum dögum síðar sé síðasti leikurinn þeirra fyrir Ólympíuleikana. Maður gerir sér ekki alveg grein fyrir því hvernig þeir leggja þetta upp en ég held að margt í okkar leik sem við spiluðum úti í Þýskalandi, sérstaklega til að byrja með, hafi verið lærdómsríkt og margt af okkar plani þá gekk upp.

Við vitum að við erum að mæta góðu liði en við þurfum að verjast vel og við þurfum að hafa hugrekki til þess að sækja á þær og refsa þeim þegar þær opna sig og eru með margar frammi, fáar til baka og gefa tækifæri á sér.

 Pólverjarnir til dæmis í síðasta verkefni hefðu getað verið komnir í tvö eða þrjú núll og hefðu getað refsað þeim betur, þær sköpuðu sér góða möguleika, og við sjáum alveg ýmsa möguleika þar eins og Pólverjar lögðu þetta upp.

Við förum í engan leik nema til að vinna hann og það breytist ekkert þó við mætum Þýskalandi.

Við leggjum ekki upp leik gegn Þýskalandi með því að bíða eftir seinni leiknum í Póllandi. Við mætum í Þýskalandsleikinn af krafti og plönum það og leggjum allt upp með það að við endum sem sigurvegarar," sagði Þorsteinn Halldórsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert