Stelpurnar ofhugsa færin

Keflvíkingurinn Anita Lind Daníelsdóttir í baráttunni við Stjörnukonuna Önnu Maríu …
Keflvíkingurinn Anita Lind Daníelsdóttir í baráttunni við Stjörnukonuna Önnu Maríu Baldursdóttur. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta eru mikil vonbrigði,“ sagði Jonathan Glenn, þjálfari Keflavíkur, í samtali við mbl.is eftir tap sinna kvenna fyrir Stjörnunni, 1:0, í 11. umferð Bestu deildar kvenna í knattspyrnu í Garðabænum í kvöld. 

Keflavík er í neðsta sæti deildarinnar með sex stig en liðið hefur þrátt fyrir það spilað vel í flestöllum leikjum.

„Við spiluðum vel og sköpuðum okkur fullt af færum. En svona er fótboltinn, ef þú skorar ekki úr þínum færum þá er þér refsað. 

Það vantaði smá upp á. Mér fannst stelpurnar ofhugsa færin. Þar sem við erum neðarlega í deildinni líður þeim eins og þær þurfa að nýta hvert einasta færi og ofhugsa þá. 

Þá setja þær aðeins of mikla pressu á sig. Í leiðinni vantar þá aðeins upp á færanýtinguna,“ sagði Glenn beint eftir leik.

Mjög furðulegt tímabil

„Þetta er búið að vera furðulegt tímabil. Við höfum spilað mjög vel og skapað fullt af færum í okkar leikjum. 

Flestir leikirnir hafa verið mjög tæpir. Það er vonbrigði að vera bara með sex stig en vonandi breytist góð frammistaða í sigra,“ bætti Glenn við.

Keflavík mætir Fylki í næsta leik en um er að ræða fallslag af bestu gerð en liðin sitja í neðstu tveimur sætunum.

„Það er nóg eftir af tímabilinu en það er afar mikilvægur leikur, má kalla hann sex stiga.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert