Þeir fá þessa einu hornspyrnu og skora

Arnar Grétarsson fyrir leikinn.
Arnar Grétarsson fyrir leikinn. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Valsmenn verða ekki bikarmeistarar í fótbolta í ár en þeir voru slegnir út í kvöld af KA-mönnum. KA vann Val 3:2 í spennandi leik á KA-vellinum og stóðu áhorfendur með öndina í hálsinum fram að lokaflauti dómarans.

Arnar Grétarsson, þjálfari Vals, var að vonum súr með tapið.
Valsmenn voru mun meira með boltann en náðu ekki að komast í gegnum varnarmúr KA. KA-menn voru stórhættulegir þegar þeir komust í sókn og voru ansi beittir.

„Við gefum þeim fyrsta markið. Það var klaufalegt og við töpum boltanum á vondum stað. Þeir refsuðu okkur með marki. Svo kom mark eftir hornspyrnu í lok fyrri hálfleiks.“

Var gjöf frá okkur

Þess má geta að Valur fékk níu hornspyrnur í fyrri hálfleik áður en eina hornspyrna KA-manna kom.

„Þeir fá þessa einu hornspyrnu og skora. Það er líka gjöf frá okkur þar sem við erum með boltann en töpum honum og þeir fá þá hornið. Þarna eru komin tvö mörk sem við gefum. Svo byrjum við seinni hálfleikinn með miklum krafti. KA-menn drepa leikinn, henda sér niður og væla og taka þannig taktinn úr leiknum. Þeir gera það vel.

Svo gegn gangi leiksins skora þeir þriðja markið. Þá var staðan ennþá erfiðari en við skorum strax og fáum svo alla vega eitt færi til að jafna. Við erum mikið að þrýsta á þá en svona síðustu tíu mínúturnar fær KA tvö ef ekki þrjú algjör dauðafæri. Þeir áttu að klára leikinn endanlega á þessum lokakafla. Þetta er bara svekkjandi. Ef þú gefur eða gerir stór mistök eins og í tveimur fyrstu mörkum KA þá er bara erfitt að vinna fótboltaleiki. Við gerðum þetta líka á móti ÍA þar sem við töpuðum líka 3:2. Þetta er blóðugt í svona leik.“

Valur hafði verið á miklu skriði fram að leiknum gegn ÍA en nú eru komin tvö töp í röð.

„Við erum bara ólíkir sjálfum okkur í þeim leikjum. Það er bara slakur varnarleikur sem skilur á milli. Við þurfum að laga þessa hluti fyrir næsta leik. Við vinnum ekki bikarinn í ár. Það er nokkuð ljóst. Þá er það bara næsti leikur í deild, sem er gegn Fylki á laugardag. Þá þurfum við heldur betur að rífa okkur í gang,“ bætti Arnar við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert