Breiðablik vann nauman sigur gegn Tindastól, 1:0 í 11. umferð Bestu deildar kvenna í knattspyrnu á Sauðárkróki í kvöld.
Úrslitin þýða að Breiðablik er enn á toppi deildarinnar með 30 stig en Tindastóll er í áttunda sæti með 10 stig.
Breiðablik byrjaði viðureignina af miklum krafti. Fyrsta færi leiksins kom á 4. mínútu en þá kom Andrea Rut Bjarnadóttir með góða fyrirgjöf á Vigdísi Lilju Kristjánsdóttur sem átti skalla yfir markið.
Mínútu síðar komst Breiðablik yfir með marki frá Andreu Rut Bjarnadóttur. Boltinn barst til hennar eftir klafs í teignum og lagði hún honum snyrtilega í fjærhornið.
Vigdís Lilja Kristjánsdóttir fékk fínasta færi á 7. mínútu til að tvöfalda forystu Breiðabliks. Þá gerði hún vel og lék á varnarmann og átti síðan skot rétt framhjá markinu.
Í kjölfarið róaðist leikurinn töluvert og varð meira jafnræði milli liðanna. Heimakonur í Tindastól náðu lítið að ógna marki Blika en áttu hins vegar fínustu spilakafla.
Besta færi Tindastóls fékk Jordyn Rhodes eftir hálftímaleik. Þá fékk hún boltann í gegn frá Anikka Haanpaa, leitaði inn á vinstri fótinn og átti skot yfir. Staðan í hálfleik, 1:0 fyrir Breiðablik.
Síðari hálfleikur byrjaði eins og sá fyrri endaði. Liðin skiptust á að vera með boltann og sköpuðu sér ágætis færi.
Bryndís Rut Haraldsdóttir átti skot rétt framhjá á 49. mínútu þegar boltinn barst til hennar eftir darraðardans í teig Blika.
Jordyn Rhodes átti hörkuskot um miðbik síðari hálfleiks þegar hún fékk boltann rétt fyrir utan teig Breiðabliks en Telma Ívarsdóttir varði vel.
Á 74. mínútu fékk Jordyn Rhodes annað gott færi þegar hún fékk boltann inn fyrir vörn Breiðabliks en skot hennar fór beint í fangið á Telmu Ívarsdóttur.
Fjórum mínútum síðar var Jordyn Rhodes aftur í góðu færi þegar boltinn datt fyrir hana í teignum en Telma Ívarsdóttir sá við henni. Ótrúlegt að Rhodes hafi ekki skorað í dag eftir mörg frábær færi.
Tindastóll hélt áfram að pressa Breiðablik en án árangurs. Lokaniðurstöður í kvöld, 1:0 sigur Breiðabliks.