Gæði og heppni er góður kokteill

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings.
Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, var að vonum sáttur eftir sigur á Stjörnunni í vítaspyrnukeppni í undanúrslitum bikarkeppni karla í knattspyrnu í Víkinni í kvöld. Víkingur er þar með kominn í bikarúrslit í fimmta sinn í röð.

Víkingur hefur tapað einum bikarleik frá byrjun tímabilsins 2019 en það var einmitt gegn Stjörnunni árið 2020. Það ár var bikarkeppnin hins vegar blásin af vegna Covid-faraldursins áður en náðist að klára hana. Það virðist því vera nánast ómögulegt að vinna Víking í bikarnum.

„Það var tæpt núna! Við héldum einhvern veginn að þetta væri komið en náðum ekki að klára leikinn í seinni hálfleik. Stjarnan sýndi þvílíkt hugrekki og hjarta í að ná að jafna leikinn. Mér fannst við vera frábærir í framlengingunni, hvar við fundum þessa orku og hvað okkur langaði þetta mikið. Við erum svo með góðar vítaskyttur en í vítakeppni þarftu alltaf smá heppni með, það þurfa bara öll meistaralið heppni með sér. Gæði og heppni er góður kokteill.“

Eins og Arnar kemur inná voru Víkingar betri aðilinn í framlenginunni og virtist vera meira eftir á tanknum hjá Víkingum en Stjörnumönnum.

„Við erum í ofboðslega góðu formi. Svo langar þessum strákum bara svo mikið að vinna, þetta er ótrúlegur hópur. Það er erfitt að halda alltaf áfram, það er mannlegt eðli að taka smá andlega pásu eftir að maður hefur unnið eitthvað. Þá slakar maður kannski á um 5 prósent og það er bara nóg til þess að tapa og tapa titlum. Það skein í gegn í framlengingunni hvað okkur langaði þetta mikið og við vorum einhvern veginn með auka gír, misstum aldrei trúnna.“

Stjarnan jafnaði metin þegar einungis örfáar sekúndur voru eftir af uppbótartíma venjulegs leiktíma. Það sýnir líklega enn frekar karakterinn í Víkingsliðinu að finna þennan kraft í framlenginunni.

„Ímyndaðu þér sjokkið. Þú ert farinn að sjá þetta fyrir þér, búinn að panta miða fyrir fjölskylduna á úrslitaleikinn en svo allt í einu færðu þetta í andlitið. Þetta er bara merki um topp íþróttamenn, að ná að núllstilla sig fyrir framlenginguna og minna sig á hvers megnugir við erum. Við munum detta út úr þessari keppni einhvern tímann en mér fannst við bara ekki tilbúnir til þess núna.“

Víkingar skoruðu af öryggi úr öllum sínum spyrnum í vítaspyrnukeppninni og var greinilegt hve yfirvegaðir þeir voru þegar þeir stigu á punktinn.

„Það eru náttúrlega nokkrar vítaskyttur þarna sem elska svona augnablik. Þetta var það í bland við óbilandi trú sem er erfitt að útskýra. Þú getur æft vítaspyrnur daginn út og daginn inn en svo mætirðu í pressu aðstæður og þá getur öll æfing farið út í veður og vind. Ég sagði bara við þá að halda sinni rútínu og ekki breyta neinu. Sem betur fer dugði það.“

Víkingur mætir KA í úrslitaleiknum en sömu lið áttust við í úrslitaleiknum í fyrra. Arnar telur að það muni ekki hafa áhrif að mæta sama liði og í fyrra.

„Þegar maður er kominn í úrslitaleik skiptir engu máli hvaða lið þú færð. Ég vil bara gefa stórt hrós til KA-manna og Hadda [Hallgrímur Jónasson, þjálfari KA] hvernig hann er búinn að vera auðmjúkur í öllu mótlætinu. Hann er búinn að tala mjög vel eftir leiki, verið jákvæður og er að uppskera eftir því núna. Þetta er alveg rétt hjá honum, KA er með mjög gott lið, frábæra einstaklinga og þeir eru á skriði núna. Það er meðbyr með þeim núna en það er svo sannarlega meðbyr með okkur líka. Allir okkar úrslitaleikir hafa verið misgóðir en allir hafa þeir verið erfiðir.“

Þetta var þriðji leikur Víkings á stuttum tíma og í kvöld spilaði liðið 120 mínútna leik ásamt uppbótartímum. Evrópuleikur við Shamrock bíður liðinu en Arnar horfir bjartsýnum augum fram veginn.

„Ég talaði áðan um hvernig við fundum þessa orku í framlengingunni því fólk gleymir því að þetta er þriðji leikurinn okkar á sex dögum. Við sjáum ekki einu sinni lið á EM spila þrjá leiki á sex dögum. 

Ég ætla að vona að strákarnir hafi komist þokkalega frá þessu. Davíð Örn meiddist aftur, því miður, en annars sýnist mér aðrir hafa sloppið vel frá þessu. Við þurfum að hugsa vel um þá því það er stórleikur á móti Shamrock þann 9. júlí.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert