Valur með sigurmark á lokamínútu

Jasmín Erla Ingadóttir úr Val með boltann í bikarleik liðanna …
Jasmín Erla Ingadóttir úr Val með boltann í bikarleik liðanna á dögunum. mbl.is/Óttar

Valur sigraði Þrótt, 1:0, með marki á lokamínútu venjulegs leiktíma í Bestu deild kvenna í knattspyrnu í kvöld á Hlíðarenda. 

Úrslitin þýða að Valur er í öðru sæti með 30 stig, jafn mikið og Breiðablik á toppnum. Þróttur er hins vegar í sjöunda sæti með 10 stig. 

Fyrri hálfleikur var afar jafn og áttu bæði lið góða kafla og fengu ágætis færi. Þróttur byrjaði leikinn vel og á 4. mínútu átti Freyja Karín Þorvarðardóttir skalla rétt framhjá eftir fasta fyrirgjöf frá Caroline Murray á hægri kantinum. 

Á 17. mínútu gerði Þróttur tvisvar tilkall til að fá víti en Gunnar Freyr Róbertsson, dómari leiksins, lét sér fátt um finnast. Fyrst var Leah Pais ýtt niður í teignum og í seinna skiptið átti Kristrún Rut Antonsdóttir skot í hendina á Málfríði Ernu Sigurðardóttur. 

Nadía Atladóttir, framherji Vals, fór illa með gott færi á 22. mínútu eftir frábæran undirbúning frá Ísabellu Söru Tryggvadóttur. Nadía fékk þá boltann, alein í teig Þróttar, frá Ísabellu en skotið fór rétt framhjá. 

Valsarinn Ragnheiður Þórunn Jónsdóttir átti tilraun sem var bjargað á línu á 38. mínútu. Það gerðist þegar Mollee Swift, markmaður Þróttar, missti boltann klaufalega úr fanginu sínu og náði Ragnheiður að pota í boltann en Sæunn Björnsdóttir, varnarmaður Þróttar, bjargaði á línu. 

Tveimur mínútum síðar gerði Leah Pais vel þegar hún lék á bæði Málfríði Ernu Sigurðardóttur og Lillý Rut Hlynsdóttur en skot hennar var meistaralega varið af Fanneyju Birkisdóttur í marki Vals. 

Síðari hálfleikurinn var töluvert rólegri en sá fyrri. Ennþá var mikið jafnræði á milli liðanna og voru Valskonur aðeins meira með boltann en Þróttarakonur voru þéttar fyrir. 

Freyja Karín Þorvarðardóttir fékk fínasta skallafæri á 84. mínútu eftir hraða skyndisókn Þróttar en skalli hennar fór rétt framhjá. Sóley María Steinarsdóttir, varnarmaður Þróttar, fékk fínt færi skömmu síðar þegar boltinn datt fyrir hana í teig Vals en skot hennar í varnarmann. 

Það var svo á lokamínútu venjulegs leiktíma að hin 16 ára Ragnheiður Þórunn Jónsdóttir skoraði eina mark leiksins og tryggði Val sigur. Það kom eftir frábæra fyrirgjöf frá Önnu Rakel Pétursdóttur á vinstri kantinum sem rataði á Ragnheiði í teignum og kláraði hún af miklu öryggi í markið. Lokaniðurstaða í kvöld, 1:0 sigur Vals. 

Valur 1:0 Þróttur R. opna loka
90. mín. Ragnheiður Þórunn Jónsdóttir (Valur) skorar 1:0 - Valur tekur forystuna! Anna Rakel með frábæra fyrirgjöf inn á teiginn sem finnur Ragnheiði sem klárar frábærlega í markið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert