Jökull um nýja kerfið: „Þoli ekki fimm manna vörn“

Jökull Elísabetarson, þjálfari Stjörnunnar.
Jökull Elísabetarson, þjálfari Stjörnunnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jökull Elísabetarson, þjálfari Stjörnunnar, var stoltur af sínu liði þrátt fyrir tap gegn Víkingi í vítaspyrnukeppni í undanúrslitum bikarkeppni karla í knattspyrnu í Víkinni í kvöld.

„Ég er bara ánægður með liðið, mikil bæting á mörgum sviðum. Það er svona aðallega það sem maður tekur útúr þessu.“

Síðasti leikur Stjörnunnar var einnig gegn Víkingi en þá vann Víkingur sannfærandi sigur í Garðabæ, 4:0. Stjörnuliðið var öllu sterkara í kvöld.

„Við vorum ákveðnari og unnum betur sem lið. Leikplanið fyrir þennan leik var betra, það var ekkert sérstaklega gott fyrir síðasta leik, eða gekk allavega ekki vel upp. Við vorum þéttari, minnkuðum svæðin og vorum rólegri varnarlega. Við treystum hvor öðrum og uppstillingunni betur, stundum féllum við aðeins of djúpt en það er líka eðlilegt á móti Víkingi.“

Það stefndi allt í að Víkingur færi með sigur af hólmi í venjulegum leiktíma en Guðmundur Kristjánsson jafnaði metin þegar um 10 sekúndur voru eftir af uppgefnum uppbótartíma.

„Það var bara mjög sterkt. Þeir voru aðeins byrjaðir að tefja, eðlilega því það var mjög lítið eftir. Þetta var bara mjög sterkur leikur hjá okkur, ég er mjög ánægður með hugarfar hópsins. Virkilega sterkt að mæta svona til leiks eftir síðasta leik.“

Stjarnan stillti upp í 5-2-3 leikkerfi sem við höfum ekki oft séð liðið spila áður. Heiðar Ægisson, Guðmundur Kristjánsson og Daníel Laxdal mynduðu þriggja manna miðvarðarteymi en Sindri Þór Ingimarsson, sem hefur yfirleitt verið í miðverðinum, spilaði sem miðjumaður í kvöld. 

„Sko, ég þoli ekki fimm manna vörn og þetta er í rauninni í fyrsta skipti sem ég prófa það. Ég á ekki von á því að við förum eitthvað að alvöru í þetta kerfi. Þegar við sáum að við áttum tvo leiki í röð gegn Víkingi hugsaði maður að það væri ólíklegt að við myndum vinna þá tvisvar í röð sem sama leikplani.

Þetta var annað þeirra, að spegla þá. Þeir vilja spila 3-2-5 og þá stilltum við á móti upp í 5-2-3. Þeir hafa aðeins verið í vandræðum gegn því og það var bara valið fyrir bikarleikinn. Ég er bara ánægður með það, held að það hafi alveg verið rétt ákvörðun þó síðasti leikur hafi endað illa. Ég veit samt ekki hvort við sjáum þetta mjög oft aftur.“

Stjörnumenn gáfu allt sem þeir áttu í þessar 120 mínútur sem leikurinn í kvöld var. Stutt er í næsta leik en Stjarnan heimsækir KR strax á laugardaginn.

„Mér sýnist menn vera bara þokkalega á sig komnir. Það eru nokkrir sem eru að koma til baka eftir meiðsli og spiluðu mjög mikið. Ég held að það verði mjög lítið mál að gíra menn upp í leikinn á laugardaginn. Menn sjá að það er augljóst hvað við bættum og við verðum að byggja á því. Það er það sem við ætlum að gera þannig að ég held að það verði lítið mál að fá menn til að halda því áfram.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert