Fer frá Víkingi til Svíþjóðar

Sigdís Eva Bárðardóttir í leik með Víkingi.
Sigdís Eva Bárðardóttir í leik með Víkingi. mbl.is/Arnþór Birkisson

Sigdís Eva Bárðardóttir, leikmaður Víkings og U19 ára landsliðs Íslands í knattspyrnu, er á leið til sænska úrvalsdeildarfélagsins Norrköping.

Víkingar tilkynntu í dag að þeir hefðu samþykkt tilboð sænska félagsins.

Sigdís er aðeins 17 ára gömul en hefur verið í stóru hlutverki í sóknarleik nýliða Víkings í bestu deild kvenna í ár og í fyrra var hún markahæsti leikmaður bikarkeppninnar þegar Víkingsliðið varð óvænt bikarmeistari.

Í ár hefur Sigdís leikið alla ellefu leiki Víkings í Bestu deildinni og skorað í þeim þrjú mörk og hún hefur fjórum sinnum verið valin í úrvalslið umferðar hjá Morgunblaðinu á þessu tímabili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert