Ögmundur til Vals – Frederik á förum

Ögmundur Kristinsson í leik með Olympiakos fyrir nokkrum árum.
Ögmundur Kristinsson í leik með Olympiakos fyrir nokkrum árum. Ljósmynd/@OlympiakosFr

Ögmundur Kristinsson hefur skrifað undir þriggja ára samning við knattspyrnudeild Vals og verður gjaldgengur 17. júlí þegar félagaskiptaglugginn opnar. Frederik Schram er þá á förum frá Val.

Báðir eru þeir markverðir og hafa leikið fyrir Íslands hönd; Ögmundur 19 A-landsleiki og Fredrik sjö.

Ögmundur, sem er 35 ára gamall, kemur á frjálsri sölu frá Kifisias á Grikklandi þar sem samningur hans var runninn út.

„Ég er ótrúlega ánægður með að vera kominn í Val sem er alvöru félag. Ég þekki auðvitað marga stráka í liðinu og hérna er verið að gera hlutina rétt að mínu mati.

Ég er ekki bara að koma heim til þess að spila fótbolta heldur langar mig að vinna titla og ná árangri. Valur er einfaldlega besta félagið að mínu mati og hér er ég sannfærður um að mér muni líða vel,“ sagði Ögmundur í tilkynningu Vals.

Stór verkefni fram undan

Samningur Frederiks, sem er 29 ára, rennur út í lok tímabilsins og er honum því frjálst að hefja viðræður við önnur félög. Samkvæmt tilkynningu frá Val er Frederik hins vegar ekki á förum alveg strax.

„Það hefur verið frábært að vera í Val og ég skil mjög sáttur við klúbbinn og strákanna í liðinu. Mér hefur verið tekið vel í Val og ég óska félaginu alls hins besta.

Það eru hins vegar stór verkefni fram undan sem ég mun að sjálfsögðu klára af krafti,“ sagði Frederik í tilkynningunni.

Frederik Schram í leik með Val.
Frederik Schram í leik með Val. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert