KR og Stjarnan gerðu jafntefli á Meistaravöllum í Vesturbæ Reykjavíkur í dag, 1:1.
Úrslitin þýða að Stjarnan styrkir stöðu sína í sjötta sjötta sæti Bestu deildarinnar lítið eitt og KR situr enn í því áttunda. KA sem á leik til góða gegn FH á mánudag getur þá jafnað KR að stigum með sigri í Krikanum.
KR-ingar voru heilt yfir betri aðilinn í fyrri hálfleik, áttu fleiri skot að marki en sköpuðu sér þó engin afgerandi færi. Stjörnumenn voru stórhættulegir og klínískir fyrir framan markið, þeir sköpuðu sér fleiri nokkur afgerandi færi og nýttu eitt þeirra.
Á 35. mínútu fengu Stjörnumenn aukaspyrnu rétt utan teigs. Róbert Frosti var fljótur að hugsa og tók spyrnuna strax og þræddi Hauk inn fyrir vinstra megin. Ungi strákurinn gerði engin mistök og skoraði með föstu skoti fram hjá Guy Smit ofarlega í nærhornið.
KR-ingar reyndu og reyndu en lítið gekk fyrir framan mark Stjörnumanna. Guðmundur Kristjánsson stýrði varnarleik gestanna vel og greip inn í þegar á þurfti að halda og Stjarnan leiddi með einu marki þegar liðin gengu til búningsherbergja.
Það var jafnræði með liðunum í seinni hálfleik en KR þó aðeins meira með boltann. Bæði lið fengu ágætis færi en engin dauðafæri þar til djúpt í uppbótartíma að KR fékk hornspyrnu frá vinstri.
Það voru komnar sex mínútur fram yfir venjulegan leiktíma en átta mínútum var bætt við þegar Aron Sigurðarson tók hornið og setti boltann frekar flatan á fjær þar sem Axel Óskar missti af honum en náði að snúa og ná valdi á honum. Að lokum náði varnartröllið að koma boltanum inn fyrir línuna. Lokatölur 1:1.
Mbl.is fylgdist vel með og færði ykkur það helsta í beinni textalýsingu.